Framboðslistar eru að tínast inn

Misjafnt er eftir kjördæmum hve margir flokkar hafa skilað inn …
Misjafnt er eftir kjördæmum hve margir flokkar hafa skilað inn framboðslistum. mbl/Eggert

Frestur til að skila inn framboðslistum fyrir Alþingiskosningar þann 28. október næstkomandi rennur út klukkan 12 á hádegi í dag. Framboðum er skilað inn til yfirkjörstjórnar en það er misjafnt eftir kjördæmum hvenær byrjað var að taka á móti framboðum og hve mörgum framboðum hefur verið skilað inn nú þegar.

Í Norðvesturkjördæmi hafa þrír flokkað nú þegar skilað inn öllum gögnum; Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Vinstri græn. Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í kjördæminu, segist þó vita að hin framboðin séu á leiðin og muni skila sér fyrir 12.

Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi, segir alla flokka, sem vitað er að muni skila inn framboðum, nú þegar hafa skilað. Hann gerir ekki ráð fyrir að nýtt framboð komi fram á síðustu metrunum. Tíu flokkar hafa skilað inn framboðslistum til kjörstjórnarinnar; Björt framtíð, Framsóknarflokkurinn, Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn, Flokkur fólksins, Miðflokkurinn, Píratar, Alþýðufylkingin, Samfylkingin og Vinstri græn.

Í Suðurkjördæmi hefur sjö framboðum verið skilað inn nú þegar. Formaður kjörstjórnar, Ólafía Ingólfsdóttir, var ekki með listann yfir framboðin fyrir framan sig og gat því ekki upplýst um hvaða framboð væri að ræða. Yfirkjörstjórnin hyggst funda klukkan hálf ellefu.

Í Suðvesturkjördæmi hafði ekki einu einasta framboði verið skilað inn, enda aðeins tekið á móti framboðum á milli klukkan 10 og 12 í dag.

Tveimur framboðum hefur verið skilað inn í Reykjavíkurkjördæmi norður. Þeim var báðum skilað inn á miðvikudag, en svo verður tekið á móti framboðum á milli klukkan 10 og 12 í dag. Þeir flokkar sem skilað hafa inn listum í kjördæminu eru Vinstri græn og Píratar. Erla S. Árnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar, gerir ráð fyrir að hinir framboðslistarnir skili sér allir fyrir klukkan 12 í dag.

Ekki náðist í formann yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert