Meti hvort moltan þurfi í umhverfismat

Atvinnusvæðið í Gufunesi. Íslenska gámafélagið og Moldarvinnslan eru með moltugerð …
Atvinnusvæðið í Gufunesi. Íslenska gámafélagið og Moldarvinnslan eru með moltugerð í Gufunesi, en íbúar í Grafarvogi hafa frá því í sumar ítrekað kvartað undan ólykt frá svæðinu. mbl

Verið getur að moltugerð tveggja fyrirtækja í Gufunesi þurfi að fara í gegnum umhverfismat. Fyrirtækin tvö, Íslenska gámafélagið og Moldarvinnslan, eru þegar með moltugerð í Gufunesi og hafa verið í einhver ár.  Eftir að Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur tóku að berast ítrekaðar kvartanir frá íbúum í hverfinu um að óþef legði frá svæðinu í ákveðinni vindátt hafa kröfur á fyrirtækin á svæðinu verið auknar.

Kvartanir haldið áfram að berast fram í nóvember

Um miðjan ágúst greindi mbl.is frá því að súrt hey í hrossaskít á vinnslusvæði Íslenska gámafélagsins væri talin möguleg ástæða óþefs á svæðinu og var það í kjölfarið fjarlægt. Kvartanir um óþef héldu þó áfram að berast og sagði Dagur B. Eggertsson á fundi með íbúum í Grafarvogi í september að annaðhvort sé magn moltugerðar meira en áður, eða eitthvað í framleiðslunni sé ekki eins og það eigi að vera. „Hugs­an­lega er þetta líka blanda af báðu,“ sagði Dagur.

Guðjón Ingi Eggertsson, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirlitinu, staðfestir að kvartanir hafi haldið áfram að berast nú fram í nóvember.

Ólykt af moltugerð Gámaþjónustunnar í nágrenni Vallahverfisins í Hafnarfirði hefur einnig vakið óánægju meðal íbúa í því hverfi að því er DV greindi frá á föstudag.

Moltu­gerðin, eða endurvinnsla úrgangs/jarðgerðar lífræns úrgangs, var inni í starfs­leyfi Íslenska gáma­fé­lags­ins. Um­fang moltu­gerðar fyr­ir­tæk­is­ins hefur hins vegar vaxið verulega og úrskurðaði Heilbrigðiseftirlitið þá að sérstakt starfsleyfi þyrfti fyrir þennan þátt starfseminnar. Heilbrigðiseftirlitinu var hins vegar lítt kunnugt um moltugerð Moldarvinnslunnar þar til í sumar og fyrirtækið ekki með starfsleyfi. Bæði fyrirtæki hafa hins vegar nú sótt um sér­stakt starfs­leyfi fyr­ir moltu­gerðina sem er í vinnslu hjá Heilbrigðiseftirlitinu.

Framtíðarskipulag Gufuness gerir ráð fyrir ylströnd og blandaðri byggð á …
Framtíðarskipulag Gufuness gerir ráð fyrir ylströnd og blandaðri byggð á svæðinu. mynd/Reykjavík

Guðjón Ingi segir í skriflegum svörum að verið sé að vinna sértæk starfsleyfisskilyrði fyrir starfsemi hvors fyrirtækis um sig. Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum er endurnýting úrgangs þar sem meðhöndluð eru meira en 500 tonn af úrgangi á ári tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar sem metur hvort framkvæmdin skuli sæta mati á umhverfisáhrifum. Bæði fyrirtækin sækja að hans sögn um vinnslu á meira magni en 500 tonnum á ári og því ljóst að tilkynna þarf starfsleyfisumsóknirnar.

Þurfa að tilkynna starfsemina til Skipulagsstofnunar

Samkvæmt upplýsingum frá Ásdísi Hlökk Theódórsdóttur, forstjóra Skipulagsstofnunar, var stofnuninni ókunnugt um málið þar til bréf barst frá íbúa sem vildi kanna með möguleikann á umhverfismati. „Okkur var ókunnugt um þetta þar til við fengum þennan póst og leituðum í kjölfarið upplýsinga um málið hjá Heilbrigðiseftirlitinu,“ sagði Ásdís Hlökk er mbl.is ræddi við hana í síðustu viku.  Hún fái ekki betur séð en að starfsleyfi þurfi fyrir moltugerðinni. Fyrirtækin þurfi „að tilkynna til Skipulagsstofnunar þessa áformuðu starfsemi“ og stofnunin  taki svo ákvörðun um hvort hún þurfi að fara í mat á umhverfisáhrifum.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, segist telja að starfsleyfi þurfi …
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, segist telja að starfsleyfi þurfi fyrir moltugerðinni.

Guðjón Ingi segir að fyrir liggi að auglýsa eigi tillögur að starfsleyfunum. „Á auglýsingatíma, sem er fjórar vikur, geta allir sem telja sig eiga hagsmuni sent Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur athugasemdir við tillögu að starfsleyfi og starfsleyfisskilyrðum.“ Að loknum auglýsingatíma hafi heilbrigðisnefnd Reykjavíkur síðan fjórar vikur til að taka afstöðu til útgáfu starfsleyfis. 

Heilbrigðiseftirlitið stjórni hins vegar ekki eitt og sér tímaásnum í þessu ferli því samkvæmt lögum verði mat Skipulagsstofnunar, varðandi starfsemi sem geti haft mengun í för með sér, að liggja fyrir áður en hægt sé að auglýsa tillögur að starfsleyfunum.

Mávurinn sveimi yfir rotnandi matarleifunum

Í bréfi sem Ögmundur Reykdal, íbúi í Grafarvogi, sendi Skipulagsstofnun segir hann að í Gufunesi séu „þúsundir tonna af rotnandi matarleifum“ og að mávurinn sveimi þar yfir. „Meira að segja rotturnar gera sig heimakomnar í þessum matvælafjöllum,“ segir í bréfi hans.

Guðjón Ingi segir að miðað við upplýsingar Heilbrigðiseftirlitsins frá Íslenska gámafélaginu um vinnslumagn og það magn sem sótt er um leyfi fyrir megi álykta að það geti verið allt að 1.000 tonn í vinnslu á sama tíma. „Stundum kannski meira og á öðrum tíma minna,“ segir í svörum hans. „Það er engan veginn einfalt að meta magnið hverju sinni og ljóst að það er breytingum háð.“ Heilbrigðiseftirlitið hafi hins vegar engin gögn sem gefi til kynna að verið sé að meðhöndla þúsundir tonna hverju sinni, en sé meðvitað um að magnið geti verið meira en eitt þúsund tonn hverju sinni í jarðgerðarferlinu.

Horft til Gufuness frá Hallsteinsgarði.
Horft til Gufuness frá Hallsteinsgarði. mynd/Reykjavíkurborg

Heilbrigðiseftirlitið hafi hins vegar staðfest það í eftirlitsferðum að vargfugl sækir í múgana, þ.e. moltugerðarhaugana. „Lögð hefur verið áhersla á það við fyrirtækið að það viðhaldi ráðstöfunum til að torvelda aðgengi fugla að úrganginum, t.d. að ávallt séu múgar huldir með nægu magni af timburflís þannig að fuglar sjái ekki úrganginn. Skráningar í innra eftirliti fyrirtækisins benda til þess að framfylgd þessa sé ekki nægilega góð,“ segir Guðjón Ingi.

Ábendingar um rottugang teknar alvarlega

Stofnunin hafi hins vegar engin gögn sem bendi til þess að vargfugli hafi fjölgað í eða við Grafarvog á síðustu árum, né heldur hafi starfsmenn Heilbrigðiseftirlitsins orðið varir við rottugang í sínum eftirlitsferðum hjá Íslenska gámafélaginu. Ábendingar íbúa um rottur í eða við moltuhauga séu þó teknar alvarlega, en engar vísbendingar um rottugang í Gufunesi hafi fundist né borist kvartanir um rottugang í íbúðahverfum í nágrenninu.

Þá hafi fengist þær upplýsingar hjá meindýravörnum Reykjavíkur að engar kvartanir berist vegna rottugangs frá íbúum í Grafarvogi. Tvö tilfelli hafi komið upp um rottugang við starfsemi í Gufunesi á sl. tveimur árum og ekki séu vísbendingar um að rottur séu vandamál þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert