„Ég veit bara að ég er miður mín“

Gunnar Hrafn Jónsson, fyrrverandi þingmaður Pírata.
Gunnar Hrafn Jónsson, fyrrverandi þingmaður Pírata.

„Sum segja mig gera lítið úr kynferðisofbeldi með þessari fyrri færslu um sektarkennd vegna kynlífs sem ekki átti að eiga sér stað. Það var alls ekki ætlunin.“ Þetta skrifar þingmaðurinn fyrrverandi Gunnar Hrafn Jónsson á Facebook. Fyrr í dag birti hann færslu þar sem hann deildi frásögn af fyrstu kynlífsreynslu sinni með lesendum.

Hann segist í þeirri færslu hafa verið fullur og á miklum eiturlyfjum. Hann hafi verið 15 ára. Hann segir að stúlkan hafi líka verið ölvuð og þau hafi stundað kynlíf með fullu samþykki. Daginn eftir hafi hún hringt og sagt að hann hefði ekki átt að sofa hjá henni.

„Ég gengst við því að það var rangt, þó að ég hafi verið töluvert meira vímaður. Ég var í valdastöðu sem mun sterkari karlmaður. Engin þvingun átti sér stað og við skildum sátt en daginn eftir hringdi hún í mig og var full eftirsjá,“ skrifaði Gunnar Hrafn.

Hann sagði að þetta hefði litað allt hans líf og að hann hefði ekki getað stundað kynlíf í mörg ár. „Ég vil bara nota þetta tækifæri til að biðjast afsökunar ef hún er að lesa og hvetja aðra karlmenn til að reyna að skilja að samþykki er ekki allltaf samþykki.“

Nú í kvöld skrifar Gunnar Hrafn að honum hafi í dag borist mörg gagnrýnin skilaboð frá konum og körlum, vegna skrifa sinna. Hann sé í sumum skilaboðanna vændur um að gera lítið úr kynferðisofbeldi. Það hafi síður en svo verið ætlun sín.

„Mögulega er ég að reyna að varpa einhverri ábyrgð verstu kynbræðra minna á mína eigin hegðun af sektarkennd og píslarvættisdómi. Það er heldur ekki fallegt. Ég veit bara að ég er miður mín yfir því hvernig margir karlmenn koma fram við konur og vil ekki sjá slíka hegðun í framtíðinni. Nú er vonandi vitundarvakning að eiga sér stað,“ skrifar Gunnar Hrafn.

Hér er færsla Gunnars frá því í dag:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert