Hangikjöt til Úganda

Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri Nóatúns, segir Íslendinga leynast um allan heim. …
Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri Nóatúns, segir Íslendinga leynast um allan heim. Meðal margra tuga matarsendinga á dag til Íslendinga erlendis fyrir jólin er að finna sendingar til Ástralíu, Grænhöfðaeyja og Úganda. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum að senda frá okkur vörur til Íslendinga sem búsettir eru um allan heim allt árið um kring en þetta er í algjöru hámarki hjá okkur í desember,“ segir Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri Nóatúns, í samtali við mbl.is en Trausti og starfsfólk hans hafa látið hendur standa fram úr ermum síðustu daga og vikur við að koma íslenskum jólamat, sælgæti og öðrum nauðsynjum til Íslendinga um gervalla heimsbyggðina.

„Við erum að senda gríðarlegt magn frá okkur, þetta eru tugir sendinga á dag síðustu dagana fyrir jólin og töluvert líka fyrir áramótin en ekkert í líkingu við þessa síðustu daga fyrir jól,“ segir Trausti og bætir því við að langflestar sendingarnar frá Nóatúni fari til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, hann metur það svo að um helmingur fari þangað. „England og Bandaríkin eru líka nokkuð stór. Annars leynast víst Íslendingar um allan heim og við erum búin að senda til Úganda, Grænhöfðaeyja og Ástralíu svo einhver dæmi séu tekin.“

En hvað skyldi það vera sem helst freistar íslenskra matgæðinga fjarri fósturjarðar ströndum? „Nóatúns-hamborgarhryggurinn er vinsælastur og þar á eftir er hangikjötið, laufabrauðið og Ora grænu baunirnar. Við sendum líka töluvert af íslensku konfekti, lakkrís, síld og flatkökum,“ segir Trausti.

Vilja ólmir halda í íslenskar hefðir

Það er DHL sem annast þessa matarflutninga fyrir Nóatún. Viðskiptavinir senda pantanir sínar almennt í tölvupósti, starfsfólk Nóatúns tekur svo vörurnar saman daglega, gengur frá greiðslu gegnum síma, aðallega með kreditkortum, og starfsfólk DHL kemur í daglegar ferðir í Nóatún og sækir kassana en dagurinn í dag markar síðustu forvöð til að koma sendingum af stað svo tryggt sé að þær berist viðtakanda áður en heilagt er orðið.

„Þetta er að aukast hjá okkur með hverju árinu sem líður og við finnum það að Íslendingar sem búsettir eru erlendis vilja ólmir halda í íslenskar hefðir um jólin og hafa sinn hefðbundna mat á borðum,“ segir framkvæmdastjórinn.

Hann segir Nóatún hafa boðið upp á þessa sendingarþjónustu til Íslendinga erlendis svo lengi sem elstu menn muni og þurfa Íslendingar í útlöndum ekki að kvíða því að hörgull verði á íslenskum matvælum yfir hátíðir framtíðarinnar ef marka má lokaorð Trausta Reynissonar í þessu spjalli: „Við munum sjá um að færa Íslendingum búsettum erlendis jólamatinn um ókomin ár.“

mbl.is