„Veitir þvílíka gleði“

Þrisvar í viku fer Svanur Þorsteinsson að hjóla með aldraða Kópavogsbúa um Kópavogsdalinn á svokölluðu Kristjaníuhjóli. „Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef nokkurn tíma gert, að sjá hvað fólk fær mikla gleði og ánægju út úr þessu,“ segir Svanur, sem hefur hjólað sem sjálfboðaliði í hálft annað ár.

Íslenska veðrið er engin fyrirstaða og mbl.is kíkti í hjólreiðatúr með Svani og þeim Sigríði Árnínu Benediktsdóttur og Guðmundi Eiríki Jónmundssyni um Kópavogsdalinn á aðventunni.

Svanur er einn þeirra sjálfboðaliða sem hjóla á vegum Hjólafærni sem stendur að verkefninu Hjólað óháð aldri. Samtökin hafa nokkur slík hjól á sínum vegum en þau er búin rafhlöðu og mótor sem léttir undir í átökunum. 

Svanur er sjálfur orðinn sjötugur og því hættur að vinna en hjólreiðaferðirnar eru góð leið til að halda sér í formi þar sem heildarþyngd hjólanna getur verið á fjórða hundrað kílóa. 

Hægt er að gerast sjálfboðaliði á með því að hafa samband við Hjólafærni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert