Skyndiákvarðanir ökumanna skapa hættu

Fjöldi viðbragðsaðila á vettvangi slyssins í Eldhrauni í gær.
Fjöldi viðbragðsaðila á vettvangi slyssins í Eldhrauni í gær. Ljósmynd/Landsbjörg

„Í dag búum við við eitt stórt og mikið vandamál sem er sennilega orðið hættulegasti farartálmi og slysavaldur á íslenskum þjóðvegum; það eru skyndiákvarðanir ökumanna á bílaleigubílum sem snarhemla á miðjum þjóðvegi ef eitthvað áhugavert sést eða gerist. Eða þá að þeir átta sig á að þeir eru að fara ranga leið og taka u-beygju á vegi fyrirvararlaust án þess að hugsa eða sjá fyrir sér aðra umferð í kringum sig.“

Þetta skrifar Vignir Þór Siggeirsson, starfsmaður Hópferðabíla Akureyrar, á Facebook-síðuna Bakland ferðaþjónustunnar í gærkvöldi en rúta frá fyrirtækinu lenti í alvarlegu slysi eftir árekstur við fólksbíl í Eldhrauni í gærmorgun.

Í ítarlegri færslu sinni, sem Vignir skrifar fyrir hönd fyrirtækisins, nefnir hann einnig vetrarþjónustu á veginum sem slysið varð á. 

„Þó að leiðin frá Vík í Mýrdal og austur í Jökulsárlón sé undir umferðarmörkum Vegagerðarinnar um hálkuvarnir í efsta flokki, verður Vegagerðin að átta sig á því að sennilega er yfir 70% af farartækjum þeirrar talningar með alls óvana ökumenn undir stýri! Sem gerir þennan vegarkafla stórhættulegan og þyrfti að vera undir meira eftirliti en gangstéttir á Laugaveginum. 

„Einnig finnst mér ámælisvert hvernig vetrarþjónusta Vegagerðarinnar er í dag um nær allan „Gullhringinn“, sá veghringur verður að vera algjörlega undir gjörgæslu allan sólarhringinn og verður að vera laus við alla „klamma“myndun sem alltaf hefur myndast á vegum þessa fjölfarna hrings.“

Færslunni lýkur Vignir á áminningu til fólks í ferðaþjónustu:

„Eitt sem ég vil minnast á að lokum og beint er til allra í ferðaþjónustu, er þið komið að slysi! Ekki hleypa farþegum út úr bíl á slysstað. Farþegar eiga ekkert erindi inn á slysstað, því miður gerðist það í dag á slysstað að rúta hleypti öllum sínum farþegum út úr bílnum sem tafði fyrir og raskaði verksummerkjum á slysstað. Við hljótum öll að vera sammála um að halda farþegum inn[i] í bíl, þó að leiðsögumaður og bílstjóri geti komið til aðstoðar á slysstað.“

Færsla Vignis í heild:

Mikið og alvarlegt slys varð er bíll frá okkur hjá Hópferðabílum Akureyrar fór út af veginum og valt eftir árekstur við fólksbíl í Eldhrauni í morgun. 

Alltaf er hörmulegt er slíkir atburðir gerast og er hugur okkar hjá aðstandendum stúlkunnar sem lést, hugur okkar er einnig allur hjá bílstjóra fyrirtækisins og fjölskyldu hans. 
Viljum við hjá HBA koma á framfæri miklum og kærum þökkum til allra viðbragðsaðila fyrir fagleg og fumlaus vinnubrögð. Viljum einnig koma á framfæri þökkum til þeirra íbúa Skaftárhrepps sem lögðu á sig margir hverjir mikla og fórnfúsa vinnu við hjálp á slysstað. 
Við Íslendingar erum rík þjóð að eiga frábærar viðbragðssveitir og velviljaða íbúa í hverri sveit um gjörvallt landið sem alltaf leggja á sig ómælda vinnu við að aðstoða í hverri nauð. 

Nefndi ég við löggæslumenn á slysavettvangi í dag að íslensk ferðaþjónusta ætti við nýtt vandamál að stríða, bílstjórar hefðu frá fyrstu dögum bílamenningar barist við veður, snjó, hálku og lausagöngu búfjár. Nú væri búið að beisla og koma í veg fyrir að lausaganga búfjár truflaði umferð eins og hún gerði hér forðum. Upplýsingar um veður og færð væru komin í rauntíma og betra fyrir alla að átta sig á aðstæðum sem fram undan væru. 

Í dag búum við [við] eitt stórt og mikið vandamál sem er sennilega orðinn hættulegasti farartálmi og slysavaldur á íslenskum þjóðvegum; það eru skyndiákvarðanir ökumanna á bílaleigubílum sem snarhemla á miðjum þjóðvegi ef eitthvað áhugavert sést eða gerist. Eða þá að þeir átta sig á að þeir eru að fara ranga leið og taka U-beygju á vegi fyrirvararlaust án þess að hugsa eða sjá fyrir sér aðra umferð í kringum sig.

Þó að leiðin frá Vík í Mýrdal og austur í Jökulsárlón sé undir umferðarmörkum Vegagerðarinnar um hálkuvarnir í efsta flokki, verður Vegagerðin að átta sig á því að sennilega er yfir 70% af farartækjum þeirrar talningar með alls-óvana ökumenn undir stýri! Sem gerir þennan vegarkafla stórhættulegan og þyrfti að vera undir meira eftirliti en gangstéttir á Laugaveginum. 

Einnig finnst mér ámælisvert hvernig vetrarþjónusta Vegagerðarinnar er í dag um nær allan „Gullhringinn“, sá veghringur verður að vera algjörlega undir gjörgæslu allan sólarhringinn og verður að vera laus við alla „klamma“myndun sem alltaf hefur myndast á vegum þessa fjölfarna hrings.

Eitt sem ég vil minnast á að lokum og beint er til allra í ferðaþjónustu, er þið komið að slysi! Ekki hleypa farþegum út úr bíl á slysstað. Farþegar eiga ekkert erindi inn á slysstað, því miður gerðist það í dag á slysstað að rúta hleypti öllum sínum farþegum út úr bílnum sem tafði fyrir og raskaði verksummerkjum á slysstað. Við hljótum öll að vera sammála um að halda farþegum inn í bíl, þó að leiðsögumaður og bílstjóri geti komið til aðstoðar á slysstað. Bestu þakkir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert