Fær sex mánaða dóm vegna rútuslyss

Mbl.is/Jónas Erlendsson

Bílstjóri rútu sem valt á Suðurlandsvegi 27. desember 2017 með þeim afleiðingum að tveir kínverskir ríkisborgarar létust og tveir slösuðust alvarlega hefur verið dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og sviptur ökuleyfi til tveggja ára.

Þetta var niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands, en dómur í málinu féll í gær.

Í ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi er bílstjórinn sagður hafa ekið of hratt miðað við aðstæður og án nægjanlegrar aðgæslu, en hált var á veginum.

Héraðsdómur fellst á að ákærði hafi með háttsemi sinni unnið sér til refsingar, en samkvæmt umferðarlögum skal jafnan miða ökuhraða við aðstæður með sérstöku tilliti til öryggis annarra. Þá skal ökumaður gæta þess að ökutæki sé í góðu ástandi, en samkvæmt bíltæknirannsókn var hemlaleysi algjört á tveimur hjólum hópferðabifreiðarinnar.

Slysið varð við útsýnisstað í Eldhrauni skammt frá Kirkjubæjarklaustri og samkvæmt ákærða og vitnum hægði fólksbifreið á sér á veginum fyrir framan rútuna. Bílstjórinn mun þá hafa reynt að bremsa og svo fært sig yfir á öfugan vegarhelming en misst á henni stjórn með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar. 

Einn farþeganna kastaðist út úr hópferðabifreiðinni og var „bersýnilega látinn“ samkvæmt skýrslu lögregluþjóna á vettvangi. Tveir farþegar voru fastir undir rútunni þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Einn farþegi lést af sárum sínum á sjúkrahúsi um hálfum mánuði eftir að slysið varð.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is