Skautasvell í götunni

Börn í Grafarvogi renna sér á skautum á götunni.
Börn í Grafarvogi renna sér á skautum á götunni. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson

Flughált er í mörgum húsagötum á höfuðborgarsvæðinu í dag eftir að hlýna tók í veðri. Í sumum götum, m.a. í Grafarvogi þar sem meðfylgjandi mynd er tekin, er mikið svell og nýttu börnin það til að reima á sig skautana.

Þó að börnin njóti þess að renna sér á svellinu getur hálkan verið varasöm fyrir gangandi sem akandi vegfarendur. 

Þannig hefur veðurfræðingur Vegagerðarinnar vakið sértaklega athygli á aukinni hálku á vegum vegna hlýindanna, einkum á langleiðum og fáfarnari vegum og í sama streng er tekið í viðvörunarorðum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Veðurvefur mbl.is.

Miklar umhleypingar eru í veðrinu þessa dagana. Í dag verður suðaustanhvassviðri og sums staðar stormur. Hvassast verður síðdegis og þá hlýnar í veðri. Víða verður vætusamt og talsverð eða mikil rigning um landið suðaustanvert síðdegis.

Veðrið gengur niður um landið vestanvert þegar líður á kvöldið. Lítil lægðarbóla myndast yfir landinu í nótt með rigningu eða snjókomu bæði á Suðurlandi og síðar einnig á Norðurlandi í fyrramálið og má búast við vestanstormi norðaustan til á landinu um tíma á morgun.

Gengur niður eftir hádegi, en næsta veður nálgast hratt með suðaustanhvassviðri eða -stormi annað kvöld með talsverðri rigningu. Því má víða búast við hálku á vegum.

Þá mun hvessa síðdegis og hviður verða undir Hafnarfjalli, allt að 35 m/s, einkum frá kl. 16 til 19 í kvöld. Þá verður einnig hvasst á norðanverðu Snæfellsnesi um og eftir klukkan 18-19 í kvöld. 

Færð er víða þung á vegum landsins samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.

Suðvesturland: Hálkublettir eru víða á Reykjanesi. 

Suðurland: Hálka, krapi og hálkublettir. Þoka er á fjallvegum. Flughálka er víða á útvegum í Árnes- og Rangárvallasýslum.  

Vesturland: Hálka og snjóþekja. Flughálka er á Útnesvegi, í Staðarsveit og norðan megin á Snæfellsnesi. Skafrenningur á fjallvegum.

Vestfirðir: Mokstur er hafinn á Vestfjörðum. 

Norðurland: Hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum leiðum. Þæfingur og éljagangur á Hólasandi. Ófært og stórhríð er á Hófaskarði. 

Austurland: Hálka eða snjóþekja er á flestöllum leiðum, skafrenningur og éljagangur á fjallvegum.

Suðausturland: Hálka og snjóþekja. Flughálka er á Skeiðarársandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert