Margir slegnir yfir sögunum

Hafdís Inga segir að bregðast verði strax við.
Hafdís Inga segir að bregðast verði strax við. Ljósmynd/verilymag.com

„Margar af þessum sögum eru mjög, mjög alvarlegar. Það rímar við það sem ég er búin að vita,“ segir Hafdís Inga Hinriksdóttir, sem er í forsvari fyrir hópi kvenna sem sendi frá sér yfirlýsingu í dag vegna kynbundins ofbeldis og misréttis innan íþróttahreyfingarinnar.

Einnig voru birt­ar 62 frá­sagn­ir kvenna úr heimi íþrótt­anna af kyn­bund­inni mis­mun­un, kyn­ferðis­legri áreitni og kyn­ferðis­legu of­beldi.

„Ég held að margir séu slegnir yfir þessu. Þetta gefur ákveðna mynd af því hvernig umhverfið og menningin er innan íþróttanna. Þetta er eitthvað sem þarf að bregðast við strax.“

Hafdís Inga hvetur alla til að líta nærri sér, hvort sem um er að ræða sérsambönd, félög, þjálfara, foreldra eða aðra. Einnig vill hún að sveitarfélög og ráðuneytið geri kröfur á félög og íþróttahreyfinguna um að virk stefna sé í jafnréttis- og ofbeldismálum innan íþrótta.

„Mín reynsla er að ef hlutirnir snúast um fjármagn þá gerist eitthvað. Jafnvel gætu styrkir frá sveitarfélögum verið háðir því að það sé einhver stefna í gangi. Það er aldrei hægt að koma í veg fyrir allt en alla vega þannig að það sé verið að gera eitthvað til úrbóta.“

Hafdís Inga var einnig í viðtali í Kastljósi í kvöld þar sem hún lýsti sinni eigin reynslu af kynferðisofbeldi innan íþróttahreyfingarinnar. Hún var 16 ára gömul þegar henni var nauðgað af landsliðsmanni í handbolta sem var henni mikil fyrirmynd. Sagði hún ofbeldið hafa orðið til þess að hún átti ekki séns. Hún sagðist sjálf hafa tekið fulla ábyrgð á ofbeldinu, hún skammaðist sín og sagði ekki frá í mörg ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert