Fljótt að gerast í norðvestanátt

Súðavíkurhlíð.
Súðavíkurhlíð. mbl.is/RAX

Snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands fylgist með stöðu mála í Súðavíkurhlíð en tilkynning um snjóflóð barst klukkan 5.30 í morgun.

Að sögn Auðar Kjartansdóttur á snjóflóðavakt Veðurstofunnar er Súðavíkurhlíð mjög viðkvæm fyrir norðvestanáttinni sem var þar í nótt. „Hlutirnir eru fljótir að gerast við þær aðstæður,“ segir hún.

Vegagerðin var strax látin vita af snjóflóðinu og í framhaldinu var veginum um Súðavíkurhlíð lokað.

Súðarvíkurvegi hefur verið lokað vegna snjóflóðahættu.
Súðarvíkurvegi hefur verið lokað vegna snjóflóðahættu. Ljósmynd/ Halldór Sveinbjörnsson

Fólk í fjalllendi fari varlega 

Spurð hvort fleiri snjóflóð gætu fallið á svæðinu segir Auður að spáð sé áframhaldandi snjókomu fram eftir morgni. Snjóflóðavaktin verður í nánu samstarfi við Vegagerðina vegna stöðu mála en Vegagerðin tekur ákvarðanir um opnanir og lokanir á vegum. Smám saman mun draga úr úrkomu þegar líður á daginn.

Ekki hefur verið sérstök hætta á snjóflóðum annars staðar á landinu, að sögn Auðar, en samfara úrkomunni sem færist yfir Tröllaskaga er fylgst náið með stöðunni þar.

„Til fjalla er búið að vera hvasst og mikið fannfergi um helgina. Við hvetjum fólk sem er í fjalllendi að gæta ýtrustu varúðar,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert