„Þá haldast ekki í hendur vald og ábyrgð“

Húsnæði Landsréttar.
Húsnæði Landsréttar. mbl.is/RAX

Langur vegur er frá því að mat hæfisnefndar á dómurum sé óskeikult eins og gengið hefur verið út frá í allri umræðu um Landsréttarmálið. Þetta kom fram í máli Hauks Arnar Birgissonar hæstaréttarlögmanns á hádegisfundi lagadeildar Háskólans í Reykjavík um skipan dómara sem fram fór í dag. Benti hann á að ráðherra bæri ábyrgð á dómaraskipan samkvæmt stjórnarskránni og því eðlilegt að hann tæki slíkar ákvarðanir að henni óbreyttri.

Haukur benti á að á hinum Norðurlöndunum væri alls staðar gert ráð fyrir því að ábyrgðin á skipan dómara ætti að vera hjá þeim sem sækti umboð sitt til kjósenda. Samkvæmt stjórnarskrá Íslands bæri ráðherra ábyrgð á stjórnarathöfnum og undir það félli skipan dómara. Fyrir vikið væri það ráðherra sem bæri bæði pólitíska og stjórnskipulega ábyrgð á skipun dómara. Velti hann upp þeirri spurningu hver veldi dómarana í raun og veru.

Frétt mbl.is: Vald ráðherra fyrst og fremst formlegt

Haukur benti á að ljóst væri samkvæmt gildandi lögum væri það ekki hlutverk hæfisnefndar. Það væri ljóst samkvæmt greinargerð með lagafrumvarpinu. Þar kæmi fram að nóg teldist að einfaldur meirihluti Alþingis samþykkti tillögu ráðherra um dómaraskipan ef ekki væri farið að tillögu nefndarinnar. Krafa um aukinn meirihluta gæti þýtt að sú heimild ráðherra yrði í raun óvirk og að hæfisnefndin færi í raun með veitingarvaldið en ekki ráðherra.

Lögin gerðu þannig beinlínis ráð fyrir því að ráðherra gæti verið ósammála niðurstöðum hæfisnefndar og vikið frá þeim með aðkomu Alþingis. Hins vegar hefði það sýnt sig í framkvæmd að ráðherrann gæti í reynd ekki verið ósammála nefndinni og hefði fyrir vikið í raun og veru ekki neitt val. Þannig gæti ráðherra til að mynda ekki tekið afstöðu til niðurstöðu nefndarinnar í samræmi við lögin ef hann hefði ekki gögn hennar.

Þannig væri ráðherra í raun gert ókleift að uppfylla rannsóknarskyldu sína í samræmi við dóm Hæstaréttar. Vísaði hann til þess þegar hæfisnefndin neitaði að veita Guðlaugi Þór Þórðarsyni, settum dómsmálaráðherra við skipan fjögurra héraðsdómara fyrr á þessu ári, aðgang að gögnum sem hún notaði til þess að leggja mat á umsækjendur þegar óskað var eftir því. Svar nefndarinnar hafi verið á þá leið að hún lyti ekki boðvaldi ráðherra.

„En hvernig á þá ráðherra á sama tíma að uppfylla rannsóknarskyldu sína í málinu? Að mínu viti er komin upp einhver farsakennd staða. Sérstaklega þegar litið er til þess að umsækjendur, sem ekki voru skipaðir í embætti, eru núna farnir að fá miskabætur frá ríkinu vegna þess að ráðherra sinnir ekki rannsóknarskyldu sinni,“ sagði Haukur. Sagði hann fráleitt að ganga út frá því að fulltrúar í hæfisnefndum væru óskeikulir í niðurstöðum sínum.

Viðurkenndi að matið hefði verið ónákvæmt

Benti Haukur í því sambandi á að hæfisnefndin hefði breytt verklagi sínu á milli Landsréttarmálsins og skipunar fjögurra héraðsdómara sem gerði allan samanburð erfiðan ef ekki ómögulegan. Þar fyrir utan lægi beinlínis fyrir viðurkenning formanns nefndarinnar, Jakobs R. Möller, í skýrslutöku í héraði á því að niðurstaða hennar í Landsréttarmálinu hafi hugsanlega verið ónákvæm. Fyrir vikið væri ekki hægt að líta á hana sem óskeikula.

„Þegar af þeim sökum þá er auðvitað ekkert hægt að hengja sig í niðurstöður þessarar nefndar og allt tal um að þessi niðurstaða sé rétt er bara merkingarlaust tal. Mér finnst það bara blasa við. Það sem á eftir kemur leiðir allt saman af þessari rökvillu að val nefndarinnar sé rétt,“ sagði Haukur ennfremur. Gögn nefndarinnar sýndu að mat hennar gengi ekki upp. Vísaði hann þar sérstaklega til Excel-skjals sem nefndin notaði til grófflokkunar umsækjenda.

Þannig hefðu allir umsækjendur fengið fullt hús stiga fyrir almenna starfshæfni, samningu dóma og stjórnun þinghalda. „Það blasir samt við að þessir 33 umsækjendur hafa ekkert allir starfað við samningu og ritun dóma eða stjórn þinghalda. Það blasir við. Hvernig getur þetta fólk fengið 10 í einkunn?“ Vísaði hann þar til þess að ekki allir umsækjendur hefðu starfað sem dómarar. Tók hann fleiri dæmi um það úr gögnunum í þessum efnum.

Hæstaréttarlögmennirnir Jakob R. Möller og Haukur Örn Birgisson á fundinum …
Hæstaréttarlögmennirnir Jakob R. Möller og Haukur Örn Birgisson á fundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Til að mynda hefði Davíð Þór Björgvinsson fengið 10 í einkunn fyrir menntun en hann væri með doktorspróf í lögfræði. Sigurður Tómas Magnússon hefði hins vegar fengið 1 í einkunn en hann væri með kandídatspróf og uppfyllti starfsskilyrði. Einhver sem sinnt hefði lögmennsku allt sitt líf fengi miklu verri útkomu en sá sem hefði sinnt fjölbreyttari störfum en stoppað stutt við í hverju þeirra. Þetta væri ósanngjarnt, allavega skrítinn mælikvarði.

Þessi gögn hefðu ráðið því hver yrði skipaður dómari og hver ekki. Haukur sagðist sjálfur hafa setið í slíkum hæfisnefndum og sagði útilokað að leggja óskeikult mat á umsækjendur. Slíkt mat yrði alltaf að miklu leyti huglægt. „Það hlýtur að teljast til ákveðinnar mikilmennsku að telja sjálfan sig svo færan um að meta annað fólk út frá ótal mismunandi þáttum með þeim hætti að það sé útilokað að viðkomandi hafi haft rangt fyrir sér.“

Haukur varpaði Excel-skjali hæfisnefndarinnar upp á skjávarpa á fundinum og sýndi síðan hvaða afleiðingar það hefði ef forsendum væri breytt lítillega þar sem munur á milli sumra sæta í mati nefndarinnar væri mjög lítill. Breytti hann örlítið forsendum umsækjanda sem nefndin mat þann 16. hæfasta af handahófi og þar með ekki einn af þeim sem ætti að vera skipaður dómari við Landsrétt. Fór umsækjandi við þetta upp í 13. sæti.

Fengi val og þyrfti alltaf samþykki þingsins

„Það sýnir okkur auðvitað það að það eru alltaf skekkjumörk í svona mati, alltaf, og það er beinlínis kjánalegt að ganga út frá því að svo sé ekki,“ sagði Haukur. Tók hann fleiri dæmi um örlitlar breytingar á forsendum sem urðu til þess að allur listinn riðlaðist. Umsækjendur sem nefndin mat á meðal þeirra hæfustu duttu út og aðrir komust inn. Benti hann á að það væri hæfisnefndin sjálf sem tæki ákvörðun um vægi einstakra matsþátta.

Rifjaði Haukur upp ummæli formanns hæfisnefndarinnar fyrir héraðsdómi þar sem hann hefði sagt að gætti hefði ónákvæmni í mati nefndarinnar varðandi ákveðið atriði í mati hennar á umsækjendum um embætti dómara við Landsrétt sem og í fyrri umsögnum hennar varðandi skipun dómara. 

„Erum við þá á sama tíma í alvörunni að halda því fram að niðurstaða nefndarinnar sé hafin yfir gagnrýni. Og ef ekki þá er allt sem eftir kemur bara eitthvert leikrit. Umræðan í fjölmiðlum, dómar Hæstaréttar, umræðan á Alþingi ganga allar út frá því að nefndin hafi haft 100% rétt fyrir sér og það sé hinn eini sannleikur í málinum,“ sagði Haukur.

Sagðist Haukur ennfremur telja það stórkostlega tilviljun að fjöldi hæfustu umsækjenda sé alltaf sá sami og fjöldi lausra embætta. „Hvernig stendur á því? Jú að mínu viti er það út af því að þetta ágæta fólk sem situr í þessum nefndum, það vill sjálft ráða því hverjir verði skipaðir dómarar. Og það er engin önnur skýring á þessu.“

Rifjaði Haukur aftur upp ákvæði stjórnarskrárinnar um ábyrgð ráðherra á stjórnarathöfnum og velti því upp hvort það hafi verið hugsun þeirra sem sömdu hana að ráðherra ætti að bera ábyrgð á dómaraskipan án þess að hafi í raun ákvörðunarvaldið. Sagðist telja það mjög einkennilegt ef svo væri. 

„Hvernig er hægt að vera þeirrar skoðunar að annar aðili eigi að ákveða þetta á meðan ráðherra beri ábyrgðina?“ spurðu Haukur. Ef hæfisnefndir ættu að ráða skipan dómara ættu talsmenn þess að koma hreint fram og segja það. En þá þyrfti að breyta stjórnarskránni.

Lagði Haukur til að hæfisnefnd legði til nokkra einstaklinga sem uppfylltu hæfnisskilyrði, sem mættu vera nokkuð ströng, sem ráðherra gæti valið úr. Með hliðstæðum hætti og þekkt væri til dæmis í Noregi og Svíþjóð. Ráðherra yrði síðan alltaf að bera val sitt undir Alþingi.

Þetta væri ekki fullkomin leið. „En hún hlýtur að vera betri heldur en að ábyrgðarlaus og allt að því andlitslaus nefnd ráði þessu. Ráðherra ber ábyrgð á skipun dómara samkvæmt 14. grein stjórnarskrárinnar og af þeim sökum þá verður ráðherra að hafa eitthvað svigrúm til mats því þetta er jú alltaf háð mati, sama hver það er sem er að meta, og ef ráðherra hefur ekki svigrúm til mats þá haldast ekki í hendur vald og ábyrgð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert