Bíður enn eftir að komast heim

Sunna ásamt dóttur sinni á sjúkrahúsinu í Malaga.
Sunna ásamt dóttur sinni á sjúkrahúsinu í Malaga. Ljósmynd/Af Facebook-síðu Unnar

Sunna Elvira Þorkelsdóttir sem lamaðist eftir fall á Malaga á Spáni bíður enn eftir að komast heim til landsins. Hún átti að koma heim í dag. „Dráttur hefur orðið á málinu því hún er að bíða eftir vegabréfinu sínu,“ segir Jón Kristinn Snæhólm, talsmaður fjölskyldunnar.

Vegabréfið hennar er hjá lögregluyfirvöldum og er unnið að því að koma henni úr landi. Flugvélin sem mun flytja hana er tilbúin. Hann segist ekki vita nákvæmlega hvenær hún kemur heim en vonandi sem fyrst. 

„Við erum uggandi yfir stöðunni og líðan hennar því hún fær ekki góða þjónustu,“ segir Jón og bendir sem dæmi á að hún hafi ekki fengið að komast úr rúminu og í hjólastól eftir fallið. Ástæðan er sú að enginn hjólastóll er á sjúkrahúsinu.   

Maður Sunnu var handekinn við komuna til landsins í fyrradag. „Það tengist hennar slysi ekki neitt. Þetta eru tvö aðskilin mál,“ segir Jón. Eiginmaður hennar var handtekinn vegna fíkniefnamáls við komuna, að sögn Jóns. 

Manninum var sleppt að lokinni yfirheyrslu á Spáni og telst málið upplýst, að sögn Jóns. „Hún þvertekur fyrir að hann hafi átt þátt í því,“ segir Jón. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert