Stígurinn verður áfram lokaður

Fólkið klifraði yfir hliðið og inn á bannsvæðið.
Fólkið klifraði yfir hliðið og inn á bannsvæðið.

Við lokum stígnum þegar við teljum öryggi vegfarenda ógnað,“ segir Ólafur Arnar Jónsson, sviðsstjóri á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun, við mbl.is. Ferðamenn virtu viðvör­un­ar­skilti að vett­ugi við Gull­foss í fyrradag þar sem varað er við hættu­leg­um aðstæðum. 

Lokaða gönguleiðin er neðri stígur að Gullfossi en henni var lokað í byrjun nóvember og gert er ráð fyrir því að hún opni með vorinu. Ólafur bendir á að þetta sé mjög lítill hluti af öllu Gullfoss-svæðinu og þetta sé gert til að koma í veg fyrir að fólk slasi sig.

Gullfoss.
Gullfoss. mbl.is/Rax

„Það er eitthvað um grjóthrun þarna á veturna og svo er oft viðvarandi hálka á þar sem úði frá fossinum frýs og myndar svell á stígnum,“ segir Ólafur og bætir við að aðstæður breytist hratt og oft sé launhált á þessum neðri stíg.

Fólk missir ekki af neinu

Ólafur segir ferðamenn sem komi langa leið til Íslands til að berja fossinn augum missi ekki af neinu þó þeir fari ekki leiðina sem ekki má fara. „Það eina sem þú getur kannski ekki gert er að komast alveg að fossbrúninni. Þú getur hins vegar séð fossinn frá mörgum mismunandi sjónarhornum en allir aðrir útsýnisstaðir eru opnir og þjónustaðir en það eru alla vega þrír mjög góðir útsýnisstaðir þar sem þú getur horft frá mismunandi sjónarhornum á fossinn.“

Ekki verður farið í neinar aðgerðir til að bæta aðstæður á stígnum en talið er að slíkar aðgerðir yrðu mjög kostnaðarsamar og einnig gætu þær eyðilagt hluta svæðisins. „Auðvitað væri til að mynda hægt að byggja yfir stíginn eða hafa hann upphitaðan en þeir sem koma til að horfa á fossinn myndu þá upplifa heilmikið inngrip,“ segir Ólafur en þá gæti mannvirkið blasað við frá öðrum útsýnisstöðum.

„Allt slíkt yrði dýrt í framkvæmd og rekstri og um leið til þess fallið að rýra ásýnd fossins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert