Hafa borist kvartanir vegna breytinganna

Leið 6 tók að aka á 10 mínútna fresti á …
Leið 6 tók að aka á 10 mínútna fresti á háannafresti nú um áramót. Á sama tíma var leiðin stytt og eru íbúar Staðahverfis ósáttir við að þjónusta við þá hafi verið skert. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Breytingar á leið 6 ganga í heildina vel og utan Staðahverfis er almenn ánægja með þær í Grafarvogi, segir Guðmundur Heiðar Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó. Mbl.is greindi frá því í gær að íbúar Staðahverf­is í Grafar­vog­in­um séu afar ósátt­ir við breyt­ing­ar sem gerðar voru á leið 6 um áramótin og segja þeir þjónustuskerðinguna valda því að margir foreldrar hafi gefist upp á að láta börn sín nota strætó.

„Stjórn Strætó hafði áhuga á að láta leið 6 á ganga á 10 mínútna tíma fresti á annatíma, eins og leið 1 hefur gert með góðum árangri í rúmt ár,“ segir Guðmundur Heiðar. „Það má segja að þessi áherslubreyting núna sé upphafsskref í átt að borgarlínunni, þar sem stofnleiðir eru að ganga hratt fram og til baka  og það var vilji til að taka þetta skref.“

Áður fór leið 6 á kortér­s­fresti neðan úr miðbæ, í gegn­um Grafar­vog­inn, þar með talið Staðahverfið og upp í Mos­fells­bæ. Eft­ir breyt­ing­una fer vagn­inn á 10 mín­útna fresti, en stopp­ar nú við versl­un­ar­kjarn­ann Spöng­ina í Grafar­vogi, án viðkomu í Staðahverfi eða Mos­fells­bæ. Í staðinn ekur nú  leið 7 úr Mos­fells­bæ í gegn­um Staðahverfið á hálf­tíma fresti og stopp­ar í Spöng­inni, þar sem farþegar eiga að geta skipt um vagn og haldið áfram för sinni með leið 6.

Ekki nógu margir vagnar til að fjölga ferðum án styttingar

Guðmundur Heiðar segir ekki hafa verið hægt að fjölga ferðum á leið 6, nema með því að stytta hana um leið, því ekki séu nógu margir bílar til slíkt hefði verið hægt miðað við fyrri lengd. Farþegum á þessari leið fækki líka töluvert þegar komið sé upp í Mosfellsbæ.

„Síðan ætluðum við líka að bæta Leirvogstungu- og Helgafellslandinu inn sem áfangastöðum og það var gert með leið 7, þannig að nú erum við farin að þjónusta þau hverfi líka.“ Farþegafjöldinn réttlæti þó ekki að sú leið gangi nema á hálftímafresti eins og staðan sé í dag. „Við erum með sambærilegan fjölda ferða í fleiri úthverfum,“ segir Guðmundur Heiðar og nefnir Álftanesið sem dæmi.

Leiðarkerfið eins og það var milli miðborgarinnar og Mosfellsbæjar. Vagninn …
Leiðarkerfið eins og það var milli miðborgarinnar og Mosfellsbæjar. Vagninn ekur nú ekki lengra en í Spöngina í Rimahverfinu en ekur þess í stað á 10 mínútna fresti.

Guðmundur Heiðar viðurkennir að Strætó hafi borist kvartanir vegna breytinganna. „Við höfum heyrt í mörgum, sérstaklega í Staðahverfinu,“ segir hann. „Okkur finnst eins og Mosfellsbærinn sé í heildina ánægður með leið 7, sérstaklega þeir sem búa í Helgafellslandinu og Leirvogstungunni og þá eru flestir í Grafarvoginum sem ég hef heyrt í ánægðir með að fá leið 6 á 10 mínútna fresti.“

Mesta óánægjan sé hins vegar í Staðahverfinu. „Við erum alveg meðvituð um hana og ég hef hvatt þá sem hafa samband til að senda inn ábendingar því allar ábendingar sem koma inn í gegnum vefinn okkar eru skráðar og svo notaðar síðar til að réttlæta breytingar.“

Hver mínúta skiptir máli á stofnleiðum

Spurður hvort að tíminn sem það tæki leið 6 að taka einnig hring um Staðahverfið sé of langur, segir hann svo vera. „Þegar við erum að skipuleggja svona hraða leið þá telur hver mínúta. Í dag stemmir tíminn ekki alveg og það er eitt vandamál sem við erum að fínpússa núna.“

Í Facebook-hópi íbúa Staðahverfis þar sem strætómálin eru rædd hefur einmitt komið fram að áætlunin standist ekki. Áætlaður tími fyr­ir leið 6 úr Spöng­inni niður í miðbæ hafi áður verið 43 mín­út­ur, en sé núna 38 mín­út­ur og í morg­un­um­ferðinni hef­ur leið 6 25 mín­út­ur sam­kvæmt tíma­áætl­un. Guðmundur Heiðar viðurkennir að of knappur tími hafi verið áætlaður fyrir leið 6. „Vandamálið verður m.a. á biðstöðinni í Ártúni, þar sem vagnarnir raða sér upp í röð. Upphaflega var ekki gert ráð fyrir biðtíma í þar, en svo er vagninn fastur í röð þar til allir fara af stað.“ Hann er þó bjartsýnn á að sú áætlun verði orðin rétt fljótlega.

Þá hafa íbúar einnig bent á að leiðafyrirkomulag sé oft tæpt fyrir þau börn sem sæki framhaldsskóla niðri í bæ. Samkvæmt áætlun eigi þeim að duga að taka leið 7 úr Staðahverfinu kl. 7.20 á morgnana, skipta síðan í Spönginni yfir í leið 6 sem fari um 7.30 til að vera mætt í skólann 8.10. Börnin lendi hins vegar oft í því að ná ekki þeim vagni og komu fyrir vikið of seint í skólann. Til þess að vera örugg um að mæta á réttum tíma þurfi þau því að taka vagninn kl. 6.50.

Hvetja fólk til að senda inn ábendingar

„Við erum  enn að fá reynslu á leið 7 og allar breytingar þurfa að smá tíma,“ segir Guðmundur Heiðar. „Yfirleitt gengur áætlunin upp en hins vegar verða alltaf einhver frávik. Við tökum hins vegar alveg við ábendingum og ef það eru margir sem eru að tala um að þessi tenging gangi illa þá getum við alveg skoðað það.“

Í heildina sé Strætó hins vegar ekki að finna fyrir því að breytingin valdi miklum óþægindum.

Hann hafi rætt við Sigríði Lóu Sigurðardóttur, sem mbl.is ræddi við, og fleiri íbúa Staðahverfis. „Ég bið þá að senda inn erindi og við reynum að hlusta, en það er erfitt með almenningssamgöngur að alltaf þegar einhverjar breytingar eru gerðar, að þá eru alltaf einhverjir sem eru því miður ónægðir. Það er stóra áskorunin þegar við erum að fást við svona kerfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert