Skýr samtímagögn liggi fyrir í málinu

Björn Þorvaldsson saksóknari segir skýr samtímagögn liggja fyrir í málinu, …
Björn Þorvaldsson saksóknari segir skýr samtímagögn liggja fyrir í málinu, sem styðji við gloppótta vitnisburði. mbl.is/Hari

Aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis er nú lokið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og málið hefur verið sett í dóm. Saksóknari og verjendur tókust á um nokkur efnisatriði málsins í andsvörum eftir hádegi í dag.

Björn Þorvaldsson saksóknari sagði það engu skipta, sem fram hefði komið í málflutningsræðum verjenda í málinu, að sá grundvallarmunur væri í þessu máli og sambærilegum málum Kaupþings og Landsbankans að Íslandsbanki-FBA, forveri Glitnis, hefði sent tilkynningu árið 1998 um að bankinn væri með viðskiptavakt í eigin bréfum.

Lagabreyting árið 2005 hefði gert fjármálafyrirtækjum óheimilt að vera með viðskiptavakt í eigin bréfum og í þeim efnum skipti ekki máli hvort hún hefði verið formlega tilkynnt eins og hjá Glitni eða verið óformleg, eins og hjá Kaupþingi og Landsbanka.

„Þetta var ekki viðskiptavakt,“ sagði Björn enn fremur.

Framganga deildar eigin viðskipta, með gríðarlegum kaupum á eigin bréfum, hafi ekki átt neitt skylt við hefðbundna viðskiptavakt.

Verjandi Lárusar Welding, Óttar Pálsson, sagði í gær að Glitnir banki undir stjórn Lárusar hefði ekki forðast að „flagga“ – tilkynna um of háa stöðu í eigin bréfum.

Því mótmælti Björn og sagði augljóst að menn hafi forðast flöggun innan bankans. Það hefði verið gert með því að „koma bréfum í lóg“, út af efnahagsreikningi bankans, í viðskiptum sem hefðu verið að fullu fjármögnuð af bankanum sjálfum.

Skýr samtímagögn liggi fyrir

Í málflutningi sínum í gær ræddi Reimar Pétursson, verjandi Jóhannesar Baldurssonar, um að alltaf væri talað um „þessi bankamál“ eins og þau væru eitthvað einstök.

Verið væri að fjalla um málsatvik tíu árum síðar og vitnin myndu ekki mikið eftir atburðum. Meta ætti minnisleysið sakborningum í hag.

„Hverjum myndi detta í hug að fara að yfirheyra vitni í einhverju líkamsárásarmáli á einhverjum skemmtistað tíu árum síðar? Það kæmi auðvitað ekkert vitrænt út úr því,“ sagði Reimar.

Þessu svaraði Björn á þá leið ef fyrir lægju skýr gögn í tíu ára gömlu líkamsárásarmáli, myndbandsupptaka eða annað, þá væri alveg hægt að sakfella í hinu ímyndaða líkamsárásarmáli eins og í þessu markaðsmisnotkunarmáli.

„Það liggja fyrir skýr samtímagögn,“ sagði Björn um gögn málsins.

Aðalmeðferð málsins er nú lokið og málið sett í dóm.
Aðalmeðferð málsins er nú lokið og málið sett í dóm. Haraldur Jónasson/Hari

Gjörðir Lárusar ekki sambærilegar við Sigurð

Óttar verjandi Lárusar var ekki sáttur við það í gær að saksóknari segði aðkomu Lárusar að viðskiptum eigin viðskipta Glitnis svipaða og aðkomu Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings, að sambærilegum viðskiptum þess banka.

Ítrekaði hann það í dag og sagði að Sigurður hefði átt nána aðkomu að deild eigin viðskipta Kaupþings. Það hefði Lárus ekki gert hjá Glitni.

Óttar ræddi einnig um framburð Þorsteins Más Baldvinssonar, stjórnarformanns Glitnis, hjá lögreglu, en hann var gefinn er Þorsteinn Már sjálfur hafði stöðu sakbornings í málinu. Saksóknari hefur vísað til þess framburðar, en þar sagðist Þorsteinn Már meðal annars mögulega ekki hafa ritað undir lánabeiðnir til fjórtán lykilstarfsmanna Glitnis fyrr en viðskiptin hefðu verið fullkláruð.

Þessu harðneitaði Óttar. Hann sagði það augljóst, hverjum þeim sem vildi skilja þetta mál, að framburður þessi hafi verið gefinn við aðstæður þar sem stjórnarformaðurinn fyrrverandi stóð frammi fyrir því að vera mögulega stungið í steininn.

„Það er alveg öruggt að Þorsteinn Már Baldvinsson undirritaði og samþykkti þessar lánsbeiðnir áður en lán voru veitt,“ sagði Óttar.

Hann sagði ábyrgð Þorsteins Más engu minni en Lárusar Welding. Hann hafi verið æðsti maður Glitnis banka. Ef Lárusi verði gerð sekt í þessu máli sé alveg öruggt að hann hafi fengið „falskt öryggi“ með því að taka þátt í lánveitingunum til lykilstarfsmannana fjórtán með Þorsteini Má.

„Umbjóðandi minn dregur ekki fjöður yfir að hér hefði mátt ganga betur frá málum,“ sagði Óttar einnig um lánveitingarnar.

Sólarljós hafi skinið á viðskiptin

Reimar Pétursson verjandi Jóhannesar sagði tilkynningu Íslandsbanka frá 2. júlí 1998 um að bankinn væri viðskiptavaki með eigin bréf vera staðreynd. Viðskipti bankans með eigin bréf hafi öll verið fyrir opnum tjöldum síðan þá.

„Sólarljósið skín á þessi viðskipti,“ sagði Reimar.

Hann sagði það merkilega niðurstöðu að breyting á lögum um verðbréfaviðskipti árið 2005, sem virtist hafa farið fram hjá öllum, hefði gert slíkar viðskiptavaktir ólöglegar samkvæmt seinni niðurstöðum Hæstaréttar.

Ef viðskiptavaktin hefði verið ólögleg hefðu eftirlitsstofnanir brugðist leiðbeiningaskyldu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert