Óttast að fleiri hafi sögur að segja

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir frásagnir af kynferðisbrotum þurfa …
Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir frásagnir af kynferðisbrotum þurfa að koma upp á yfirborðið.

Það er fjarstæðukennt að Barnavernd Reykjavíkur telji eðlilegt að vísa frá tilkynningum um starfsmann sem hafi gerst brotlegur við börn ef sá sem brotið var á er nú orðinn lögráða. Þetta segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, í færslu sem hún birtir á Facebook-síðu sinni í kvöld.

„Þegar ég skrifaði færslu fyrir nokkru um að háttsettur aðili í embættismannakerfinu í Norður-Noregi sæti í gæsluvarðhaldi grunaður um kynferðisbrot gagnvart drengjum, sem hann hafði umsjón með, þá grunaði mig ekki að skömmu síðar þyrfti ég að svara fyrir málsmeðferð hjá Barnavernd Reykjavíkur frá árinu 2008 varðandi starfsmann sem er grunaður um kynferðisbrot. En þannig er staðan í dag,“ skrifar Regína.

Mikið hefur undanfarið verið fjallað um mál stuðningsfulltrúa, sem nú sætir gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa brotið kynferðislega gegn skjólstæðingi sínum, m.a. á Alþingi og tjáir Regína sig um umræðuna sem þar átti sér stað.

„Látið hefur verið að því liggja í ræðustóli á Alþingi og í fjölmiðlum að Barnavernd teldi að það væri eðlilegt að tilkynningu um starfsmann á skammtímaheimili fyrir unglinga, sem hefði gerst brotlegur við börn, væri vísað frá þar sem um lögráða einstaklinga væri að ræða.“

Slíkt sé hins vegar fjarstæðukennt. „Slíka tilkynningu hefði að sjálfsögðu átt að taka alvarlega og ljóst er að starfsmaður með slíkan bakgrunn ætti alls ekki að starfa með börnum,“ skrifar Regína.

„Ég hef áður sagt að ég telji að við séum að sjá toppinn á ísjakanum varðandi kynferðisbrot og ég óttast að það séu fleiri þarna úti sem hafi sögu að segja. Þær sögur þurfa að koma upp á yfirborðið. Við sem störfum á velferðarsviði Reykjavíkurborgar þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja sem best öryggi þeirra sem þurfa á þjónustu að halda. Við megum ekki bregðast trausti þessara viðkvæmustu hópa samfélagsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert