Íbúðagötur víða ófærar

Mjög slæm færð er víða í efri byggðum.
Mjög slæm færð er víða í efri byggðum. mbl.is/Styrmir Kári

Mjög skóf í nótt og eru íbúðagötur víða ófærar í höfuðborginni. Að sögn Halldórs Ólafssonar, verkstjóra snjóruðnings í Reykjavík, er afar þungt færi víða og þurfti að aðstoða marga við að komast leiðar sinnar í nótt. Útlit er fyrir að umferðin muni ganga mjög hægt vegna slæmrar færðar. 

Eftir talsverða snjókomu hvessti mikið í nótt og skóf hressilega á höfuðborgarsvæðinu. Undir morgun blotnaði í öllu og því afar þungt færi.

Halldór segir að vegna þess hversu þungur snjórinn er taki langan tíma að hreinsa götur og stíga. Ef ekki er varlega farið er hætta á skemmdum á ruðningstækjum. Ekki sé mögulegt að ljúka mokstri alls staðar í Reykjavík áður en fólk heldur til vinnu og skóla og því verði fólk að gera ráð fyrir að það taki lengri tíma en venjulega að komast leiðar sinnar. 

Ástandið er einna verst í efri byggðum þar sem snjór hefur safnast upp í íbúðagötum. Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa unnið að hreinsun stíga og gatna nánast í alla nótt og hafa ekki undan.

Á Akureyri hefur einnig snjóað töluvert og að sögn varðstjóra í lögreglunni á Akureyri er klaki undir snjónum og því nauðsynlegt að fara varlega, bæði gangandi vegfarendur sem og akandi.

Veðrið í dag mun væntanlega ekki bæta úr skák því spáð er kólnandi veðri og hvassri suðvestanátt með éljum sunnan og vestan til með morgninum, en léttir til norðaustan- og austanlands síðdegis. Gul viðvörun er í gildi á stórum hluta landsins, fyrir utan Suðausturland, Austurland og Norðausturland.

„Suðvestanátt, allhvöss eða hvöss með éljum, ríkjandi á sunnan- og vestanverðu landinu framundir helgi, en styttir upp og léttir til NA- og A-lands eftir hádegi. Hiti um og undir frostmarki, einkum við ströndina. 

Síðan er útlit fyrir lægðagang um helgina en hvar lægðin kemur upp að landinu er ennþá óvíst og minniháttar breytingar geta gefið miklar breytingar í veðurspá og er fólk því hvatt til að fylgjast vel með spám er nær dregur helgi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Starfsmenn Rauða krossins á leið upp á Kjalarnes í nótt.
Starfsmenn Rauða krossins á leið upp á Kjalarnes í nótt.

Fjöldahjálparmiðstöð á Kjalarnesi

Enn eru flestar leiðir lokaðar út úr Reykjavík fyrir utan Kjalarnes en vegurinn þar hefur verið opnaður að nýju. Hellisheiði, Þrengsli og Mosfellsheiði eru lokaðar. Um þrjátíu manns fengu inni í fjöldahjálparmiðstöð Rauða krossins í Klébergsskóla á Kjalarnesi í nótt en Rauði krossinn opnaði hana um miðnætti. Fékk fólk að bíða þar þangað til hægt var að opna veginn að nýju, samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum.

Veðurspá fyrir næstu daga.

Suðvestan 10-18 með éljum um landið vestanvert. Suðaustan 13-20 m/s og víða rigning eða slydda á láglendi austan til og snjókoma fyrir norðan fram yfir hádegi, en léttir síðan til á NA- og A-landi og kólnar aftur.
Heldur hægari á morgun, einkum annað kvöld. Víða vægt frost.

Á fimmtudag:

Suðvestan 8-15 m/s og éljagangur, en bjartviðri eystra. Frost 0 til 10 stig, minnst með S- og A-ströndinni. 

Á föstudag:
Suðvestlæg átt, allhvöss syðst, en annars hægari. Víða él, einkum V-til, en snýst í vaxandi austanátt S-lands um kvöldið og fer að snjóa þar. Frost um land allt. 

Á laugardag:
Gengur líklega í allhvassa eða hvassa norðaustlæga átt með snjókomu eða éljagangi, einkum við N-ströndina. Dregur úr frosti í bili. 

Á sunnudag, mánudag og þriðjudag:
Útlit fyrir órólegt og kalt veður með úrkomu í öllum landshlutum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert