Sveitir úr Reykjavík til aðstoðar

Björgunarsveitir aðstoða ökumann fólksbíls sem reynt hafði að snúa til …
Björgunarsveitir aðstoða ökumann fólksbíls sem reynt hafði að snúa til baka við lokunina á Mosfellsheiði. mbl.is/Hari

Björgunarsveitir víða um land hafa staðið í ströngu frá því klukkan fimm í morgun þegar veginum milli Hvolsvallar og Jökulsárlóns var lokað. Núna er mesti þunginn í starfi björgunarsveitanna í uppsveitum Árnessýslu en allflestir vegir þar eru lokaðir.

Björgunarsveitir eru þar að störfum en kallað var á fjóra hópa björgunarsveita úr Reykjavík til viðbótar á þetta svæði til aðstoðar, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Þar eru margir bílar fastir. 

Frá því morgun hafa um 130 björgunarsveitarmenn sinnt útköllum. Eftir hádegi í dag voru um 80 menn að sinna hinum ýmsu verkefnum í um 56 hópum víða um land. 

„Kosturinn við skipulagið hjá okkur er að rúmlega 4.000 manns eru á útkallsskrá og svo það er hægt að hvíla mannskapinn og kalla aðra út í staðinn,“ segir Davíð og tekur fram að samstarf milli sveitanna sé mjög gott. 

Álag um hádegið í dag 

Mikill álagspunktur var í kringum hádegið í dag. Skömmu eftir að fjöldi bíla sem festust í Þrengslunum og björgunarsveitarmenn fóru til aðstoðar lentu margir ökumenn í vandræðum milli Hveragerðis og Selfoss. Í kjölfarið var þeim vegi lokað.

Þar sem bæði Hellisheiðin og Þrengslin voru lokuð héldu nokkrir ökumenn Suðurstrandarveginn en þar var einnig slæmt skyggni og var þeim vegi var einnig lokað.

Í Þrengslunum er búið að koma farþegunum til aðstoðar sem voru fastir þar, að sögn Davíðs.  

Í dag hefur einnig mikið mætt á björgunarsveitinni í Vík í Mýrdal en þar fuku meðal annars þakplötur og bílar fuku. 

Ökumenn í Fljótshlíðinni við Hvolsvöll lentu í miklum vandræðum í morgun. Björgunarsveitirnar komu þá til aðstoðar. Enginn skólabíll ók börnum úr sveitunum í kring í grunnskólann á Hvolsvöll í dag vegna veðurs. Davíð bendir á að þar sem veginum milli Hvolsvallar og Jökulsárslóns var lokað snemma í morgun hafi fá útköll borist á því svæði og skynsamlegt að taka þá ákvörðun.

Á tíunda tímanum í morgun var keyrt á kyrrstæðan björgunarsveitarbíl með blikkandi ljós því hann lokaði veginum á Hellisheiði. Þrír voru fluttir á sjúkrahús en meiðsl þeirra eru ekki talin alvarleg. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert