„Brúarsmiðir“ horfa saman á Hverfisbarnum

Sænska lögreglukonan Saga Norén er söguhetja Brúarinnar.
Sænska lögreglukonan Saga Norén er söguhetja Brúarinnar.

„Þegar Ríkissjónvarpið hefur sýnt allar þessar góðu norrænu þáttaraðir eins og Erfingjana og Brúna, hefur mér alltaf fundist vanta þátt í líkingu við „handboltahornið“ þar sem spekingar mætast í sjónvarpssal og fara yfir hvað gerðist, hvað betur hefði mátt fara og hverju beri að fagna,“ segir rithöfundurinn Gerður Kristný sem opnar á hverju mánudagskvöldi „Brúarstofuna“ á Facebook-síðu sinni þar sem farið er yfir efni síðasta þáttar hinnar geysivinsælu dönsk-sænsku þáttaraðar Brúarinnar. Á þræðinum kvikna svo iðulega fjörugar umræður og ýmsar kenningar eru viðraðar um hvað geti mögulega gerst í framhaldinu.

Nú hefur RÚV ákveðið að sýna tvöfaldan lokaþátt Brúarinnar á mánudagskvöld. Að því tilefni ákváðu Áslaug Guðrúnardóttir, kynningarstjóri Listasafns Reykjavíkur, og Gerður Kristný að efna til samkomu á Hverfisbarnum þar sem hægt verður að horfa á þættina og ræða svo endalokin. Um fjórðu og síðustu þáttaröð Brúarinnar er að ræða. Allir eru velkomnir til samkomunnar sem hefst klukkan 20.

Áhugaverðar umræður í lok hvers þáttar

Gerður var einnig með greiningu á þáttunum Erfingjunum á sínum tíma og Brúarstofan nú nýtur mjög mikilla vinsælda. Sumir bíða greiningar Gerðar með óþreyju og margir hafa svo eitthvað til málanna að leggja. „Það vill svo til að ég á bara skemmtilega Facebook-vini,“ segir Gerður, „og þeir geta alltaf lýst því á áhugaverðan hátt hvað bærðist í hjarta þeirra þegar enn eitt morðið var framið. Síðan sjá þeir mjög oft nýjar hliðar á málum.“

Í Brúnni að þessu sinni er fylgst með samvinnu lögreglumanna í Danmörku og Svíþjóð við rannsókn hroðalegra morða þar sem aftökuaðferðum er beitt. Í broddi fylkingar fer sem fyrr sænska lögreglukonan Saga ásamt dönskum kollega sínum, Henrik.

Spurð hvernig Saga komi Gerði fyrir sjónir svarar hún: „Ég býst við að hún eigi að vera með eitthvað heilkenni en mér finnst framkoma hennar ákaflega eðlileg. Hún er hreinskiptin og á erfitt með að halda aftur af sér þegar henni liggur eitthvað á hjarta. Mér finnst hún alltaf mæla manna heilust og ég skil hana mjög vel.“

Rithöfundurinn Gerður Kristný.
Rithöfundurinn Gerður Kristný. mbl.is/Golli

En hverjar eru stóru spurningarnar sem aðdáendur þáttanna vonast til að fá svör við í hinum tvöfalda lokaþætti?

Gerður segir ýmislegt enn eiga eftir að koma í ljós. „Í fyrsta lagi þurfum við að komast að því hvort Henrik sé enn á lífi,“ segir hún en hann var staddur inni í myrku húsi í lok síðasta þáttar og nýbúinn að finna lík hengt á hurð þegar skothvellur kvað skyndilega við. „Konan hékk þarna örend uppi á hurð. Það er nú illa farið með látna konu, verð ég segja. Það er eitt að myrða hana en annað að hengja hana svona upp.“

Danska töluð í himnaríki

Þá á enn eftir að varpa ljósi á hvað varð um dætur Henriks sem hurfu sporlaust fyrir mörgum árum. Mögulega var vísbending gefin um örlög þeirra í síðasta þætti er stúlka, sem kynnt hefur verið til sögunnar sem dóttir annars manns, stóð yfir gröf systur sinnar. „Stúlkan, sem hingað til hefur talað sænsku í þáttunum, talaði dönsku yfir gröfinni. Það er sem mig grunaði, það er töluð danska í himnaríki.“

Einnig á eftir að upplýsa hver þáttur hins ógeðfellda sænska sálfræðings, sem býr í undarlega, lokaða þorpinu er. „Maðurinn í Gefjunarúlpunni, eins og hann er alltaf kallaður í Brúarstofunni, löðrungaði hann Christoffer okkar í síðasta þætti. Sá á ekki eftir að bíta úr nálinni með það,“ segir Gerður.

Hún segir því mörgum spurningum enn ósvarað og því verði lokakaflinn sérstaklega spennandi. „Ég hef séð þess merki að fólk hafi misst sig í æsingnum og þegar horft á næstu þætti. Auðvitað vonast ég til að svo æstir Brúarsmiðir mæti á mánudagskvöldið en þeir mega auðvitað ekkert láta uppi við okkur hin þar til öll kurl verða komin til grafar.“

Hér má sjá Facebook-síðu viðburðarins á Hverfisbarnum

Lögreglumennirnir Henrik og Saga eiga í flóknu ástarsambandi í Brúnni.
Lögreglumennirnir Henrik og Saga eiga í flóknu ástarsambandi í Brúnni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert