„Mamma okkar er ofurhetja“

Foreldrar Ásdísar á spítalanum í gærkvöldi.
Foreldrar Ásdísar á spítalanum í gærkvöldi. Ljósmynd/Facebook-síða Ásdísar

„Mamma okkar er ofurhetja,“ skrifaði Ásdís Birna Bjarnadóttir fyrir sína hönd og systkina sinna á Facebook í gærkvöldi. Pabbi Ásdísar, Bjarni Jón Bárðarson, hneig niður í hjartastoppi í gær en eiginkona hans, Jóhanna Soffía Hansen, brást hárrétt við.

Hún sá að hann var ekki að anda og sýndi engin viðbrögð. Hún byrjaði þegar í stað að hnoða hann á meðan hún hringdi í neyðarlínuna,“ skrifar Ásdís um móður sína. Skömmu síðar var húsið fullt af sjúkraflutningamönnum, lögregluþjónum og lækni.

Ásdís segist í samtali við mbl.is ekki hafa gert sér grein fyrir öllu ferlinu frá því fólk fær hjartastopp og þangað til það er komið á spítala. Foreldrar Ásdísar búa í Keflavík og var pabbi hennar fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann við Hringbraut.

Þakklát eftir gærdaginn

Ég er svo þakklát fyrir skyndihjálparnámskeiðið sem mamma fór á í vinnunni. Ég er svo þakklát fyrir að mamma skuli hafa þorað og getað brugðist hárrétt við án þess að hika,“ skrifar Ásdís en auk þess er hún þakklát fyrir sjúkraflutningamennina, lækninn og lögreglumennina sem hugguðu þau á meðan þessu stóð.

Ég er þakklát Lögreglunni í Reykjavík fyrir að loka gatnamótum til að koma honum sem fyrst á spítalann. Ég er þakklát læknum og hjúkrunarfræðingum á Hringbraut,“ skrifar Ásdís en hún er fyrst og fremst þakklát fyrir að pabbi hennar er enn á lífi:

„Það er hetjunni móður okkar að þakka. Mamma okkar er ofurhetja,“ skrifaði Ásdís og sagði þakklæti vera það eina sem kæmi upp í hugann á henni eftir gærdaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert