Nýjum lánum ÍLS fjölgaði á Norðurlandi vestra

Siglufjörður er á Norðurlandi vestra.
Siglufjörður er á Norðurlandi vestra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Íbúðalánasjóður (ÍLS) veitti færri lán með veði í íbúðarhúsnæði alls staðar á landinu milli 2016 og 2017 nema á Norðurlandi vestra og í Vestmannaeyjum. Þetta kemur fram í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Unni Brá Konráðsdóttur um hlutfall lána með veði í íbúðarhúsnæði.

Árið 2016 veitti ÍLS níu lán á Norðurlandi vestra upp að ríflega 57 milljónum króna, ári síðar fjölgaði þeim og voru alls 50 talsins og fjárhæðin nam rúmum 270 milljónum króna. Í Vestmannaeyjum árið 2016 veitti ÍLS 14 lán en þeim fjölgaði um fjögur milli ára og voru 18 og hljóðuðu upp á rúmar 157 milljónir króna.  

Á höfuðborgarsvæðinu lánaði Íbúðalánasjóður færri lán eins og annar staðar á landinu milli síðustu tveggja ára. Árið 2016 voru þau 980 talsins og námu 8,7 milljörðum króna. Árið 2017 voru þau 580 talsins og námu rúmum sex milljörðum króna.

Öðrum kröfuhöfum fjölgaði milli ára. Árið 2016 voru þeir 18.162 og ári seinna voru þeir 20.498 talsins. Fjöldi lána hjá öðrum kröfuhöfum fjölgaði einnig í öllum landshlutum.  

Fyrirspurn Unnar var svo hljóðandi: 

Hvert er hlutfall lána með veði í íbúðarhúsnæði af þinglýstum lánum sem veitt voru hjá Íbúðalánasjóði annars vegar og öðrum kröfuhöfum hins vegar á tímabilinu 1. janúar 2016 – 31. desember 2017 og hvert er hlutfallið sé miðað við lánsfjárhæð? Svar óskast sundurliðað eftir árum og þinglýsingarumdæmum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert