Ógjörningur að stöðva einn mann

Ómar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Öryggismiðstöðvarinnar, segir fyrirtækið fyrst og …
Ómar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Öryggismiðstöðvarinnar, segir fyrirtækið fyrst og fremst líta á málið sem mannlegan harmleik og að í 23 ára sögu fyrirtækisins hafi ekkert sambærilegt mál komið upp. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er nánast ógjörningur að stöðva einn mann sem ákveður að bregðast trausti og misnota upplýsingar,“ segir Ómar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Öryggismiðstöðvarinnar. „Við erum mjög sorgmædd yfir að þetta hafi gerst og í okkar huga er þetta bara mannlegur harmleikur, en í  23 ára sögu fyrirtækisins þá hefur þetta aldrei áður gerst.“

Greint var frá því í gær að öryggisvörður sem starfaði hjá fyrirtækinu hafi verið í hópi níu einstaklinga sem voru hand­tekn­ir vegna rann­sókn­ar á þrem­ur inn­brot­um í gagn­aver í des­em­ber og janú­ar.

Spurður hvort ástæða sé fyrir Öryggismiðstöðina að kanna fyrri störf mannsins hjá fyrirtækinu segir Ómar að líkt og fram hafi komið í tilkynningu Öryggismiðstöðvarinnar í gær þá hafi maðurinn átt flekklausan feril hjá þeim.

„Við erum með alls konar innri ferla til að skoða okkar mál og það hefur hvergi borið neinn skugga á hans störf. Auðvitað vekja svona mál upp ýmsar spurningar, en í grunninn er þetta einn aðili sem tekur slæmar ákvarðanir. Eðli málsins samkvæmt og í samræmi við okkar starfsemi, þá eru hins vegar allir ferlar og vinnubrögð teknir til skoðunar og það er bara partur af því að reka öryggisfyrirtæki.“

Ómar Örn Jónsson, markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar, segir ferla og vinnubrögð vera …
Ómar Örn Jónsson, markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar, segir ferla og vinnubrögð vera tekin til endurskoðunar þegar svona mál koma upp. Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægast að málið hafi verið upprætt

Mikilvægast fyrir Öryggismiðstöðina sé hins vegar að málið komst upp og fyrirtækið hafi átti í góðu samstarfi við lögreglu og Advania, en maðurinn var að vakta gagna­ver Advania á Suður­nesj­um þar sem m.a. var brotist inn. „Við gátum veitt alls kyns upplýsingar um málið, sem er partur af því hvernig við rekum okkar fyrirtæki. Við teljum líka mikilvægast fyrir okkur að málið gagnvart þessum starfsmanni hafi verið upplýst og að það sé ekki grunur um eitthvað saknæmt sem ekki náist að uppræta,“ segir Ómar.

Öllum sem hefja störf hjá Öryggismiðstöðinni er gert að skila inn sakarvottorði. „Við, eins og aðrir, erum bundin af lögum um persónuvernd,“ segir Ómar og bætir við að auk sakarvottorðsins séu menn beðnir um að sýna málaskrána sína hjá lögreglu. „Þannig að fólk er skimað jafn-vel og okkur er heimilt.

Rétt eins og önnur fyrirtæki þá treystum við okkar starfsfólki fyrir mikilvægum upplýsingum. Það er partur af okkar starfsemi og við treystum því að menn fari vel með þær upplýsingar og til þessa höfum við verið blessunarlega heppin með okkar starfsfólk, en svo kemur eitt svona mál og það hryggir okkur mjög mikið.“

Spurður hvort margir viðskiptavinir hafi sett sig í samband við fyrirtækið eftir að málið komst upp segir hann svo ekki vera, en viðbúið sé að Öryggismiðstöðin muni hafa samband við viðskiptavini sína í framhaldinu. „Þessa fyrstu tíma höfum við útskýrt þetta mál og ég held að fólk átti sig almennt á því að svona mál geta gerst í öllum fyrirtækjum. Þegar einn tekur svona ákvörðun er erfitt að stoppa það og þá snýst þetta meira um það hvernig brugðist er við í framhaldinu.“

Lögreglan á Suðurnesjum og Advania tilkynntu um málið í gærdag, en ekki barst tilkynning frá Öryggismiðstöðinni fyrr en um kvöldið.

Ástæðu þess tímamunar segir Ómar vera þá að Öryggismiðstöðin hafi í ljósi rannsóknarhagsmuna verið beðin um að tjá sig ekki um málið. „Við tjáum okkur náttúrulega heldur aldrei um málefni okkar viðskiptavina,“ bætir hann við, enda hafi verið eðlilegt að Advania yrði fyrri til. „Þannig að það er ekki fyrr en eftir það sem að við bregðumst við,“ segir Ómar og bætir við að Öryggismiðstöðin hafi átt gott samstarf við bæði Advania og lögreglu í málinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert