Loftslagsstefna fyrir Stjórnarráðið

Stjórnarráðið.
Stjórnarráðið. mbl.is/Ófeigur

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja 12 milljónir króna af stefnufé árið 2018 til gerðar loftslagsstefnu og aðgerðaáætlunar fyrir Stjórnarráðið.

Hluti fjármagnsins verður notaður í vinnu sérfræðings eða ráðgjafa og hluti til beinna aðgerða til að draga úr og hefja kolefnisjöfnun á starfsemi Stjórnarráðsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Loftslagsstefna fyrir Stjórnarráðið verður eitt þeirra verkefna sem unnið verður að undir hatti aðgerðaáætlunar fyrir Ísland í loftslagsmálum, samanber stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en hún mun líta dagsins ljós á þessu ári.

Gert er ráð fyrir því að hvert ráðuneyti tilnefni tengilið sinn í þessa vinnu og setji saman tveggja til þriggja manna teymi sem starfi með sérfræðingi/ráðgjafa við undirbúning og framfylgd verkefnisins.

„Ríkisstjórnin telur mikilvægt að Stjórnarráðið fari fram með góðu fordæmi, dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda í eigin ranni og vinni að því að kolefnisjafna Stjórnarráðið sem fyrst,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert