Hefði vilja ræða málið beint við nefndina

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segir úrskurðarnefndina ekki hafa leitað …
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segir úrskurðarnefndina ekki hafa leitað skýringa hjá sér. mbl.is/Ómar Óskarsson

Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, segir að framsetning og afstaða úrskurðarnefndar hafi verið óvænt, en nefndin komst þeirri niðurstöðu að málsmeðferð biskups á kvörtun einnar þeirra kvenna sem kvartaði undan sam­skiptum sínum við séra Ólaf Jó­hanns­son­ hefði í veigamiklum þáttum verið ábótavant og ekki í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga.

„Enda hef ég fyrst og fremst reynt að standa vörð um rétt þeirra sem telja á sér brotið í samskiptum fólks á kirkjulegum vettvangi“ segir í skriflegum svörum frá biskum við fyrirspurnum mbl.is. Það sé grundvallaratriði að sínu mati svo hægt sé að brjóta til mergjar viðkvæm mál sem kunna að koma upp.

Úrsk­urðar­nefnd þjóðkirkj­unn­ar úr­sk­urðaði í fimm mál­um sem varða sam­skipti séra Ólafs Jó­hanns­son­ar í síðustu vik­u. Í tveim­ur þeirra komst nefnd­in að þeirri niður­stöðu að hann hefði gerst sek­ur um siðferðis­brot. Í báðum mál­un­um var um ít­rekaða hátt­semi að ræða.

Erfitt að svara gagnrýninni efnislega

Agnes segir að í umræddum úrskurði nefndarinnar sé ekki tilgreint hvað nefndin telur ábótavant. „Því er erfitt að svara gagnrýninni efnislega, en ég hefði kosið að fá að ræða málið beint við nefndina sem leitaði ekki upplýsinga hjá mér um þetta atriði í sinni vinnu,“ segir hún.

Komi hins vegar til áfrýjunar í umræddu máli, þá muni hún leggja sig fram um að skýra aðkomu sína og afstöðu fyrir áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar. „Enda get ég engan afslátt gefið þegar ásakanir um alvarlegan trúnaðarbrest, áreiti eða ofbeldi koma upp.“  

Spurð hvers vegna skýrum starfsreglum um meðferð kynferðisbrota hafi ekki verið fylgt og fagráð þess í stað sent málið biskupi til meðferðar, segir Agnes að starfsreglum 955/2009 um meðferð kynferðisbrota hafi verið fylgt. „Þær víkja gildandi lögum ekki til hliðar. Þar eru þó ákvæði sem mætti skýra betur, til að túlkun þeirra verði hafin yfir allan vafa,“ segir hún.

Varðandi störf fagráðsins þá verði hún þó að vísa á formann þess, séra Elínu Hrund Kristjánsdóttur.

Þolendur velji máli sínu sjálfir farveg

Spurð hvers vegna kirkjan rannsaki sjálf meint brot sem eigi sér stað innan hennar, í stað þess að vísa þeim beint í annan farveg segir Agnes þolendur sjálfa velja í hvaða farveg mál þeirra séu sett. 

„Kirkjan grípur ekki fram fyrir hendurnar á fullorðnu fólki, heldur veitir þann stuðning sem þolandi óskar eftir. Ef hins vegar leikur grunur á broti gagnvart barni er slíkt skilyrðislaust tilkynnt til lögreglu í samræmi við gildandi lög.“

Reynslan sýni að sumir þolendur vilji að tekið sé á málum og brugðist við innan kirkjunnar, t.d. með tilfærslum eða brottvísun úr starfi, jafnvel þó að þeir vilji ekki lögsækja geranda. „Aðrir hafa valið að fara með mál inn í dómskerfið og krefjast refsingar samkvæmt hegningarlögum. Hver og einn þolandi verður að fá að vega og meta fyrir sjálfan sig hvaða leið er farin hverju sinni,“ segir Agnes.

Með 20 ára reynslu af meðferð þessara mála

Fagráðið sé annars mannað fagfólki sem fyrst og fremst hafi það hlutverk að veita stuðning. „Það kemur ekki í stað annarra leiða, heldur stuðlar að því að allar leiðir séu kannaðar og þolendum veittur stuðningur til að koma málum rétta leið.“

Ýmis félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir séu þessi misserin að skoða hvernig þær eigi að meðhöndla mál af þessu tagi sem koma upp á vinnustað eða í samskiptum fólks og ýmsir þeirra hafi leitað ráða hjá kirkjunni.

„Kirkjan hefur 20 ára reynslu af meðferð þessara erfiðu og viðkvæmu mála og þótt ekki hafi alltaf tekist vel til þá er viljinn til að gera rétt svo sannarlega til staða,“ segir Agnes. Það sé því gott ef að aðrir geta nýtt sér reynslu kirkjunnar til að tryggja sanngjarna og rétta málsmeðhöndlun á sínum vettvangi. 

Sjálf muni hún líkt og komi fram fyrri yfirlýsingu sinni um málið leggja sig alla fram við að upplýsa og leysa þau mál sem kunna að koma upp, hversu erfið eða óþægileg þau kunna að vera.

„Það þýðir að ég muni ekki stinga höfðinu í sandinn í erfiðum aðstæðum eða stinga skýrslum ofan í skúffu. Ég mun hafa hagsmuni sóknarbarna og almennings í forgrunni, en ekki hagsmuni stofnunarinnar eða mína eigin,“ segir biskup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert