Samstarf við Europol vegna innbrots

Húsnæði Advania á Fitjum.
Húsnæði Advania á Fitjum. Ljósmynd/Vf.is/Hilmar Bragi

Lögreglan á Suðurnesjum hefur verið í samstarfi við Evrópulögregluna, Europol, vegna rannsóknar á innbrotum í gagnaver í Reykjanesbæ og Borgarbyggð.

Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir að sú aðstoð sem lögreglan hefur fengið erlendis frá, mestmegnis frá Europol, hafi enn ekki skilað neinu markverðu.

Hann segir lögregluna vera að vinna á fullu í málinu en ekkert nýtt sé að frétta sem stendur.

Þýfið hefur enn ekki fundist og þær ábendingar sem lögreglunni hefur borist frá almenningi eru teljandi á fingrum annarrar handar, að sögn Jóhannesar. Ábendingarnar hafa engu skilað. 

Mennirnir tveir sem eru í haldi vegna málsins voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til næstkomandi mánudags.

Þrjú innbrot voru fram­in á tíma­bil­inu frá 5. des­em­ber til 16. janú­ar. Þeim hefur verið lýst sem „þaul­skipu­lögðum“. Alls hafa níu verið hand­tekn­ir en fjór­ir voru upp­haf­lega úr­sk­urðaðir í gæslu­v­arðhald. 

Einn hinna hand­teknu var ör­ygg­is­vörður hjá Örygg­is­miðstöðinni. Fyr­ir­tækið ann­ast ör­ygg­is­mál fyr­ir Advania en einn staður­inn sem brot­ist var inn á var á fram­kvæmda­svæði við gagna­ver fyr­ir­tæk­is­ins á Fitj­um. Einnig ligg­ur fyr­ir að brot­ist var inn í gagna­ver Bor­eal­is Data Center í Borg­ar­byggð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert