Alls ekki hættulausar aðgerðir

Sykursýki og hjartasjúkdómar eru oft fylgifiskar offitu og það getur …
Sykursýki og hjartasjúkdómar eru oft fylgifiskar offitu og það getur aukið lífslíkur fólks að fara í aðgerðir við offitu en slíkar aðgerðir á ekki að gera nema af vel athuguðu máli enda mikið inngrip. AFP

Á sama tíma og hlutfall þeirra sem glíma við offitu í heiminum hefur hækkað fjölgar þeim sem fara í aðgerðir á maga vegna offitu. Slíkar aðgerðir eru ekki hættulausar og þær eru kostnaðarsamar. Tvö dauðsföll hafa orðið á þessu ári í kjölfar slíkra aðgerða. Báðar aðgerðirnar voru gerðar á einkastofu. Þeir sem koma að slíkum aðgerðum segja að aðgerðin sjálf sé aðeins brot af ferlinu. Mestu skipti að sjúklingur sé vel undirbúinn og eins er eftirmeðferðin afar mikilvæg.

Ef ekki koma upp fylgikvillar og sjúklingurinn fær góðan stuðning frá þeim sem framkvæmir aðgerðina, bæði fyrir og eftir, geta lífslíkur viðkomandi aukist verulega og ekki síður lífsgæði. Um leið megi aldrei gleyma því að fylgikvillarnir, þrátt fyrir að vera óalgengir, geta verið mjög alvarlegir og jafnvel kostað mannslíf.

Ef leitað er á netinu varðandi slíkar aðgerðir kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós og kannski misgáfulegt. Heilbrigðisstarfsmenn sem mbl.is ræddi við segja að falsfréttir séu algengar á þessu sviði og oft lítið að marka „vísindalega sannaðar“ greinar um áhrif slíkra offituaðgerða. Stundum eigi slíkar greinar ekkert sameiginlegt með vísindum heldur miklu frekar markaðs- og sölustarfi.

Einu greinarnar sem hægt sé að taka mark á séu gagnreyndar rannsóknir þar sem kerfisbundið er búið að fara yfir niðurstöður þeirra af hópi sérfræðinga. Þeir sem velta fyrir sér að fara í offituaðgerðir, meðal annars vegna efnaskiptasjúkdóma, eigi að skoða greinar sem byggja á sannreyndum rannsóknum ekki markaðssetningu lækna sem eru að selja sína vöru. Verulega skorti á að rannsóknir á þessu sviði séu bornar saman og hvers vegna niðurstöðurnar eru jafnólíkar og raun ber vitni.

Talsvert er um að fólk sæki um til stéttarfélaga sinna …
Talsvert er um að fólk sæki um til stéttarfélaga sinna að taka þátt í kostnaði við offitu- eða efnaskiptaaðgerðir. Ljósmynd/Klíníkin

Skurðaðgerðir á maga vegna offitu eru bæði gerðar á Landspítalanum og af einkaaðilum. Töluverð bið er eftir slíkum aðgerðum á Landspítalanum en biðin er yfirleitt styttri á einkastofum. Eins fara einhverjir í slíkar aðgerðir í útlöndum, svo sem Tékklandi, Eistlandi, Brasilíu og Indlandi.

Kostnaðurinn nemur einni til tveimur milljónum

Ef farið er í offituaðgerð á eigin vegum fellur kostnaðurinn af aðgerðinni alfarið á sjúklinginn og hleypur hann á rúmri milljón upp í tæpar tvær milljónir króna. Aftur á móti, ef upp koma fylgikvillar og sjúklingurinn þarf að leita á sjúkrahús, fellur sá kostnaður á samfélagið þar sem um ríkisspítala er að ræða. Ekki á þann sem gerir aðgerðina, hvort heldur sem það er hér á landi eða í útlöndum.

Allir sem leita á sjúkrahús á Íslandi fá þjónustu óháð því hvort  tilefnið er aðgerð á spítala, aðgerð hjá sjálfstætt starfandi aðila með samning við Sjúkratryggingar Íslands eða aðgerð hjá óþekktum aðila úti í bæ. Í öðrum löndum er þetta með ýmsum hætti, t.d. gilda þær reglur í Svíþjóð og Noregi að allur kostnaður af fylgikvillum fellur á þann sem gerir aðgerðina, að minnsta kosti fyrsta mánuðinn eftir aðgerð. Þetta þýðir að þar halda einkastofur úti vísi að bráðamóttökum þar sem hægt er að taka á móti sjúklingum allan sólarhringinn. Ef viðkomandi þarf að leggjast á gjörgæslu eða þarf á annarri sérhæfðri þjónustu sjúkrahúsa vegna fylgikvilla að halda þá er það stofan sem greiðir kostnaðinn. Varlega áætlað má gera ráð fyrir að sólarhringur á gjörgæsludeild kosti hálfa milljón króna.

Allir sem leita á sjúkrahús á Íslandi fá þjónustu.
Allir sem leita á sjúkrahús á Íslandi fá þjónustu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Allir sjúkratryggðir eiga rétt á læknisaðstoð af hálfu ríkisins

Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir að allir þeir sem séu sjúkratryggðir eigi rétt á því að fá læknisaðstoð af hálfu ríkisins hvort heldur sem um fylgikvilla aðgerðar á einkastofu eða sjúkrahúsi er að ræða eða af öðrum ástæðum. Ekki skipti máli hvort viðkomandi hafi farið í efnaskiptaaðgerð, hálskirtlatöku, fegrunaraðgerð eða fengið sýkingu eftir húðflúraðgerð svo fátt eitt sé nefnt.

Upp hafa komið tilvik þar sem fólk hefur veikst eftir aðgerðir í útlöndum, meðal annars vegna skorts á undirbúningi. Þá er ekki nóg að vera með ferðatryggingu því slík trygging nær ekki yfir kostað sem fylgir til að mynda dvöl á gjörgæslu erlendis eða sjúkraflugi til Íslands.

Sjá nánar á vef Sjúkratrygginga Íslands

Ef sjúkratryggðir verða fyrir því að aðgerð fer á annan veg en ætlað er nær sjúklingatrygging yfir kostnaðinn sem af því hlýst fyrir sjúklinginn, að sögn Steingríms Ara.

460 milljónir greiddar út vegna sjúklingatrygginga í fyrra

„Ef sjúklingurinn verður fyrir kostnaði eða tjóni sem er umfram það sem hann átti eða mátti gera ráð fyrir fær hann bætur vegna þjónustu sem fellur undir sjúkratryggingarnar og eru þær sóttar til tryggingarfélags þess sem gerir aðgerðina. 

Sjálfstætt starfandi aðilar með samning við SÍ greiða iðgjald fyrir þessa tryggingu, en heilbrigðisstofnanir ríkisins greiða ekkert iðgjald heldur taka SÍ á sig kostnaðinn beint. Ef sjúklingur á rétt á bótum vegna aðgerðar á heilbrigðisstofnun ríkisins þá eru þær greiddar af Sjúkratryggingum Íslands. Í fyrra voru greiddar út 460 milljónir króna vegna þessara trygginga,“ segir Steingrímur Ari.

Fyrst og fremst er um að ræða bætur vegna sjúkrakostnaðar, launataps, þjáninga, varanlegrar örorku og varanlegs miska. Ekki hafi hingað til þótt ástæða til þess að fara í umræðuna um hvort kostnaður af sjúkrahúsdvöl vegna fylgikvilla sem ekki verða raktir til mistaka eigi að falla á þann sem framkvæmir aðgerðina, enda fellur kostnaðurinn í þeim tilvikum á endanum á sjúkratryggingarnar. Annað gildir um kostnað vegna mistaka sem aðgerðaraðili ætti alltaf að bera óháð því hvort hann er með tryggingu eða ekki, að sögn forstjóra Sjúkratrygginga Íslands.

Spurning um hvort þær eiga heima í sjúkratryggingakerfinu

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, segir að sífellt fleiri og um leið stærri aðgerðir séu gerðar utan spítalanna og hluti þeirra sé innan sjúkratryggingakerfisins. Hún segir að margar þessara aðgerða geti bætt lífsgæði fólks mjög og eðlilega megi velta því fyrir sér hvort aðgerðir vegna offitu eigi heima í sjúkratryggingarkerfinu. Steingrímur Ari tekur undir þetta en segir að það sé eitthvað sem stjórnvöld taki ákvörðun um, ekki stofnunin. Það er hvaða aðgerðir eigi heima innan sjúkratryggingarkerfisins og hverjar ekki.

Að sögn Önnu Sigrúnar skiptir engu hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis hjá sjúkrahúsinu eða öðrum, spítalinn taki við öllum og þar breyti engu hvort um venjulegar hliðarverkanir er að ræða eða þegar eitthvað fer verulega úrskeiðis.

María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, segir ekki fátítt að fólk leiti til Landspítalans vegna fylgikvilla aðgerða sem gerðar eru á einkastofum en slíkar
komur séu ekki skráðar sérstaklega. Það geti alltaf komið upp fylgikvillar af aðgerðum, svo sem sýkingar, blæðingar o.fl.

„Hér er auðvitað sólarhringsvakt og við sinnum öllum sem til okkar leita. Það virðist stundum vanta upp á þær leiðbeiningar sem fólk fær eftir aðgerðir á stofum þannig að það heldur að þar sé vaktþjónusta en svo er yfirleitt ekki,“ segir María.


Lilja Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs Landspítalans, segir að það fylgi engar fjárveitingar þeim sjúklingum sem koma frá öðrum meðferðaraðilum eða stofnunum á Landspítalann, til að mynda vegna fylgikvilla í kjölfar aðgerðar, né greiði þeir fyrir meðferð sjúklinganna eftir að á Landspítalann er komið.
 
Landspítalinn heldur ekki skrár eða sérstakt yfirlit um þá sjúklinga sem til spítalans leita í kjölfar meðferðar á sjúkrahúsum erlendis eða af öðrum sjúkrastofnunum/læknastofum, segir Lilja. „Það er hlutverk okkar að taka við þeim sjúklingum sem til okkar leita óháð því hvort það er í kjölfar meðferða annars staðar,“ segir Lilja Stefánsdóttir.

Magaermi.
Magaermi.

 Unnið að skýrslu um offituaðgerðir hjá embætti landlæknis 

Fréttablaðið greindi frá því janúar að embætti landlæknis væri með andlát ungrar konu til rannsóknar en konan lést eftir magaermisaðgerð. Er það fyrra dauðsfallið á þessu ári í kjölfar slíkrar aðgerðar. 

Anna Björg Aradóttir, sviðsstjóri á sviði eftirlits og frávika hjá embætti landlæknis, segir að tvö til þrjú tilvik séu til skoðunar hjá embættinu varðandi skurðaðgerðir á maga vegna offitu. Þar á meðal eru dauðsföll á þessu ári í kjölfar magaermaaðgerða. Anna Björg segir að unnið sé að rannsókn á þessum alvarlegu tilvikum sem komið hafa upp að undanförnu hjá embætti landlæknis enda beri embættinu að rannsaka slík tilvik. Hún segir að offituaðgerðir séu ekki nýlunda hér á landi en fjölbreytileiki þeirra hefur aukist sem og fjöldi þeirra undanfarin ár.

 „Við erum að skoða gögn sem við erum með í okkar gagnagrunnum um skurðaðgerðir á maga vegna offitu og við sjáum við fyrstu greiningu á gögnunum að þeir sem gera þessar aðgerðir hafa óviljandi ekki alltaf skráð allar upplýsingar varðandi aðgerðina rétt. Við erum því að afla nánari upplýsinga um þessar aðgerðir, bæði hjá opinberum stofnunum sem og einkaaðilum og stefnum á að gefa út skýrslu um slíkar offituaðgerðir á næstunni,“ segir hún en skýrslan tengist ekki þeim alvarlegu frávikum sem nú eru til rannsóknar hjá embættinu.

Verða að viðhalda meðferðinni – ekki nóg að fara í aðgerð

Anna Björg segir að í skýrslunni verði ekki bara horft til þess hvort aðgerðir skili árangri heldur einnig hvort það sé nægjanlega kannað hvort viðkomandi einstaklingur eigi að fara í slíkar aðgerðir.

Mjög mikilvægt sé að áður en viðkomandi fer í skurðaðgerð á maga vegna offitu hafi hann sýnt fram á með óyggjandi hætti að hann ætli að grenna sig.

„Aðgerðin sjálf er bara eitt af hjálpartækjunum á þeirri leið og það þarf að velja gaumgæfilega þá sem fara í slíka aðgerð. Ekki er nóg að gera aðgerðina heldur þarf að fylgjast með viðkomandi næstu árin og hann sjálfur að viðhalda meðferðinni til æviloka,“ segir Anna Björg.

Magaband.
Magaband.

Ólíkar skoðanir á aðgerðum

Nokkrar tegundir offituaðgerða eru gerðar hér á landi en flestir fara í hjáveituaðgerðir, magaermaraðgerð eða láta setja upp magaband. Skiptar skoðanir eru um magabandsaðgerðir en ein stofa, Gravitas, gerir slíkar aðgerðir á Íslandi. Þær eru heldur ekki gerðar á Landspítalanum og í mörgum löndum er nánast hætt að gera slíkar aðgerðir nema í ákveðnum tilvikum. Þær eru aftur á móti algengar í Bretlandi og á Íslandi.

Samkvæmt skráningu sænskra yfirvalda á offitu- og efnaskiptaaðgerðum þar í landi voru aðeins gerðar 19 magabandsaðgerðir frá 2012 til 2016 af 21.800 offituaðgerðum. Að sögn lækna sem ekki gera slíkar aðgerðir er það vegna þess að þær þykja ekki skila nema takmörkuðum árangri á móti talsverðri fylgikvillatíðni, á meðan hjáveituaðgerðir skila mestum árangri og magaermi þykir einnig lofa góðu en styttra er síðan farið var að gera slíkar aðgerðir.

Í frétt á mbl.is fyrr á árinu kom fram að við maga­hjá­v­eituaðgerð [e. gastric bypass] er mag­an­um skipt í tvennt, minni hluta sem fæða fer um og svo stærri hluta sem er frá­tengd­ur, þ.e. ekki er fjar­lægður neinn hluti mag­ans. Þá sé smágirn­inu skipt, fjær­hluti þess tengd­ur við litla mag­ann en nær­hluti við fjær­hluta smágirn­is 150 cm frá teng­ingu litla mag­ans og smágirn­is. Aðgerðin feli þannig í sér magaminnk­un auk þess sem leið fæðu um melt­ing­ar­veg hef­ur verið stytt.

Eng­in hjá­v­eita sé hins veg­ar gerð með maga­erm­araðgerð [e. gastric sleeve]. „Þá er stór hluti af mag­an­um fjar­lægður með því að taka af hon­um endi­löng­um og maga­rúm­málið þannig minnkað,“ seg­ir Páll Helgi Möller, yf­ir­lækn­ir kviðar­hols- og brjóst­hols­skurðlækn­inga á Land­spít­al­an­um, í frétt á mbl.is frá því í janúar. Þannig haldist melt­ing­ar­veg­ur­inn óbreytt­ur utan áður­nefndr­ar minnk­un­ar á mag­an­um.

Í magabandsaðgerðum er maga­band sett utan um efsta hluta mag­ans og þrengt að. Hægt er að stilla það eft­ir þörf­um en það er fyllt með vökva. Aðgerðin er gerð með kviðsjá og tek­ur stutta stund.

Alltaf áhætta að fara í slíkt inngrip

Í umfjöllun í Sunnudagsmogganum í fyrrasumar kom fram í máli Erlu Gerðar Sveins­dóttur, lækn­is og lýðheilsu­fræðings, sem sér­hæf­ir sig í meðferð fólks í yfirþyngd og með offitu, að hún sé hlynnt maga­hjá­v­eitu og maga­ermi en mæl­i ekki með maga­bandi.

Aðal­steinn Arn­ar­son, skurðlækn­ir á Klínikunni, segir í sama viðtali að hann telji maga­bandið ekki hent­ug­an kost en seg­ir að maga­hjá­v­eita, maga­ermi og magaslanga hafi hjálpað mörg­um.

Aðal­steinn ger­ir tvenns kon­ar aðgerðir, hjá­v­eitu og maga­ermi, og seg­ir þær báðar gefa góðan ár­ang­ur. Einnig kjósa sum­ir magaslöngu, svo­kallaðan krana, og þarf ein­ung­is maga­spegl­un til að koma henni fyr­ir. „Í hjá­v­eit­unni er ekk­ert fjar­lægt held­ur ein­ung­is tengt fram­ hjá. Í erm­inni er hluti mag­ans fjar­lægður en eng­ar aðrar breyt­ing­ar gerðar á lík­am­an­um. Sjúk­ling­um finnst þessi staðreynd aðlaðandi og þeim finnst þetta minni aðgerð,“ út­skýr­ir hann í Sunnudagsmogganum og seg­ir báðar aðgerðirn­ar vera ör­ugg­ar.

Erla segir í viðtalinu við Sunnudagsmoggann að hjáveitan sér besta aðgerðin hvað varðar lang­tíma­ár­ang­ur. Hún er hins veg­ar mesta inn­gripið. „Í sum­um til­vik­um er betra að fara í erm­ina frek­ar. Það fer eft­ir lík­ams­ástandi og heilsu­fari sjúk­lings­ins. En ég vel aldrei maga­band. Það er barn síns tíma og ef við velj­um aðgerð á annað borð, þá velj­um við annaðhvort hjá­v­eitu eða erm­ina,“ seg­ir Erla og bæt­ir við að hún hafi ekki trú á magaslöng­unni, eða svo­kölluðum krana. „Alls ekki, hann hvorki hjálp­ar þér með lífs­stíl­inn né efna­skipt­in. Þetta er til að tappa af hita­ein­ing­um og er því í and­stöðu við það sem við erum að reyna að gera. Maga­bandið er í raun meira í ætt við fegr­un­araðgerð og fólk ræður auðvitað hvað það ger­ir við lík­ama sinn. En sú aðgerð breyt­ir ekki efna­skipt­um held­ur minnk­ar bara maga­málið og það þarf að hafa áhrif á efna­skipti lík­am­ans. Ég get ekki mælt með þess­ari leið,“ seg­ir hún. „Ég fæ mikið til mín sjúk­linga þar sem maga­bandið hef­ur ekki virkað sem skyldi. Ég sé auðvitað ekki þá sem geng­ur vel hjá, sem eru alltaf ein­hverj­ir.“

Allir þeir læknar og heilbrigðisstarfsmenn sem rætt var við eru sammála um að alltaf fylgi ákveðin áhætta slíkum aðgerðum, líkt og öllum inngripum. Nauðsynlegt sé að sjúklingum sé gerð grein fyrir því og að tryggt sé eftir megni að enginn fari í slíka aðgerð án þess að vera vel undir það búinn.

Fólk sem fer í slíkar aðgerðir verður að breyta algjörlega …
Fólk sem fer í slíkar aðgerðir verður að breyta algjörlega um lífstíl eigi aðgerðin að skila árangri. AFP

Læknar bera ábyrgð

Björn Geir Leifsson, yfirlæknir á sviði eftirlits og frávika hjá embætti landlæknis, hefur gert fjölmargar megrunaraðgerðir bæði á Íslandi og erlendis. Hann segir að öllum aðgerðum fylgi hættur og fylgikvillar þó mismiklar séu. Það sé hans reynsla að læknar í löndum eins og Noregi og Svíþjóð, þar sem læknar bera ábyrgð á kostnaði sem hlýst af sjúkrahúskostnaði sjúklings í kjölfar aðgerðar, leggi almennt mikla áherslu á að vera með góða aðstöðu til þess að meðhöndla alla fylgikvilla vegna mikils kostnaðar sem fylgi innlögn á annað sjúkrahús. Ekki síst gjörgæslu. Þetta geti bæði haft jákvæð áhrif sem og neikvæð. Þau jákvæðu eru að ekki eru gerðar slíkar aðgerðir nema að vel athuguðu máli og eftir góðan undirbúning en þær neikvæðu að alltaf geti skapast sú hætta að fólk sé ekki sent á sjúkrahús fyrr en allt er í óefni komið. En hann segist telja að það heyri til undantekninga að svo sé enda læknum umhugað um orðspor sitt og þeir eigi á hættu að missa leyfið veiti þeir ekki sjúklingum sínum fyrsta flokks þjónustu.

Mikilvægt að vinna í teymi

Auðun Svavar Sig­urðsson, skurðlæknir og eigandi Gravitas, gerir magabandsaðgerðir á skurðstofu sem hann leigir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hann segir að slíkar aðgerðir hafi gefið góða raun hér á Íslandi sem og í Bretlandi þar sem hann hafi gert slíkar aðgerðir um langt árabil. Magaband sé miklu minna inngrip en magaermi eða hjáveituaðgerð en magabönd henti fyrst og fremst fyr­ir fólk með þyngd­arstuðul­inn 30-45 (BMI). Hægt sé setja maga­band í þá sem þyngri eru en erfiðara sé að glíma við þegar þyngd­arstuðull­inn orðinn hærri.

Hann segir að samkvæmt breskum lögum sé kveðið á um samstarf ríkissjúkrahúsa og einkaaðila um að næsta ríkissjúkrahús er skyldað til þess að taka við sjúklingum af einkastofum komi upp frávik eða þurfa þykir. Þetta er í raun sama kerfi og gildir á Íslandi þar sem fólkið sem er að gera aðgerð á eru íslenskir skattgreiðendur.

Auðun segir að mikilvægt sé að vinna í teymi við að undirbúa sjúklinga undir offituaðgerðir og að fólk fari ekki í slíkar aðgerðir nema eftir mikinn undirbúning. Hjá Gravitas starfi teymi lækna, hjúkrunarfræðinga og næringarfræðinga. Þeir sem vilja fara í slíkar aðgerðir fara fyrst í rannsókn hjá sérfræðingum þar sem kannað er hvort viðkomandi er fær um að fara í offituaðgerð.

Aðgerð vegna offitu er aðeins brot af löngu ferli.
Aðgerð vegna offitu er aðeins brot af löngu ferli.

Algengt að undirbúningur taki 6-12 mánuði

„Sumir þurfa gríðarlega mikinn undirbúning, tvö til þrjú ár, til þess að komast í það ástand að geta farið í slíka aðgerð,“ segir Auðun en algengast sé að undirbúningurinn taki sex til tólf mánuði.

„Svo eru margir sem eru ungir og hraustir og kannski ekki í mjög mikilli yfirþyngd sem þurfa lítinn annan undirbúning en fræðslu um meðferðina sem viðkomandi er að fara í og áhættuna sem fylgi slíkum aðgerðum. Að meta áhættuna á móti þeim kostum sem fylgja aðgerðinni. Það tekur sinn tíma og stundum er unnið með sálfræðingum og geðlæknum,“ segir Auðun og tekur undir með öðrum sem mbl.is hefur rætt við um mikilvægi þess að enginn fari í slíka aðgerð nema af vel athuguðu máli.

Magabandsaðgerð tekur 30 mínútur og sjúklingurinn er kominn út af sjúkrahúsinu tveimur tímum síðar. „Þá fyrst byrjar meðferðin,“ segir Auðun.

„Fyrst er að koma bandinu fyrir á öruggan og réttan hátt. Síðan byrjar meðferðin en næstu þrjú árin er sjúklingurinn að ná vigtinni niður. Eftir það tekur við eftirmeðferð, til að mynda að sjúklingurinn viðhaldi þyngdinni og ef það kemur upp eitthvað vandamál, svo sem með magabandið, er mjög mikilvægt að sérfræðingar séu til staðar sem geta gripið inn og lagað það,“ segir Auðun.

Sérhæfð vinna og alls ekki fyrir alla

Eðlilega komi upp vandamál við magabönd líkt og aðrar slíkar aðgerðir segir Auðun. Þá sé mikilvægt að sérfræðingurinn, sem sinnir viðkomandi sjúkling kunni til verka.

„Þá er yfirleitt einfalt og auðvelt að leysa það en til þess þarf einhvern sem kann til verka. Þetta er sérhæfð vinna og alls ekki fyrir alla efnaskiptalækna að gera þessar aðgerðir. Hér áður komu upp vandamál með magabandsaðgerðir og yfirleitt tengdust þau því að læknar voru að framkvæma slíkar aðgerðir án þess að hafa til þess næga þekkingu,“ segir Auðun. Að sögn Auðuns snúast offituaðgerðir um miklu meira en hefðbundnar skurðaðgerðir vegna þess hversu mikilvæg eftirmeðferðin er.  

Auðun segist hitta hvern einasta sjúkling mánaðarlega í tvö ár eftir aðgerð og hjá Gravitas eru yfir eitt þúsund sjúklingar. Hann segir að þessi göngudeildarmeðferð sé innifalin í kostnaðinum sem sjúklingurinn greiðir fyrir aðgerðina. Hann hafi óskað eftir því við Sjúkratryggingar Íslands að þær tækju þátt í kostnaði sem fylgir eftir meðferðinni en ekki hafi verið fallist á það. Jafnframt sé Gravitas með neyðarnúmer sem hægt er að hringja í allan sólarhringinn árið um kring og starfsfólk stofunnar sé alltaf reiðubúið til þess að veita sjúklingum stofunnar aðstoð þurfi þeir á aðstoð að halda.

Þeir sem fara í slíkar aðgerðir verða að breyta um …
Þeir sem fara í slíkar aðgerðir verða að breyta um lífstíl bæði fyrir og eftir aðgerð því hún ein og sér er ekki nóg þegar glímt er við offitu.

Lífstílsbreyting verður að fylgja

Hann tekur undir með fleiri læknum um að tímabært sé að sýna framsýni í þessum málaflokki og horfa til framtíðar á sama tíma og hlutfall þeirra sem eru að glíma við offitu og fylgikvilla tengda henni hækkar. Ávinningurinn sé gríðarlega mikill, ekki bara fyrir einstaklinginn sem fer í slíka aðgerð og nær bata, heldur einnig þjóðfélagsins vegna minni lyfjanotkunar og lægri tíðni hjartasjúkdóma og annarra sjúkdóma sem séu fylgikvillar offitu.

Björn er einn þeirra sem ekki er fylgjandi magabandsaðgerðum en að sögn Björns er gríðarlega mikilvægt að fylgja fólki eftir og styðja það næstu árin eftir aðgerðir á maga vegna offitu og læknar eigi alls ekki að gera slíkar aðgerðir á fólki nema það sé alveg öruggt að viðkomandi sé reiðubúinn og hafi sýnt að það sé í stakk búið að breyta um lífstíl.

„Aðgerðin virkar ekki ef ekki er breytt um lífsstíl. Hún þvingar fram breytingu á lífsstíl og þeir sem eru með magaband en borða mikið geta lent í slæmum fylgikvillum vegna magabandsins. Sama á við um aðrar aðgerðir. Þeir sem lenda í vandamálum eru oft þeir sem ekki fara að fyrirmælum eftir aðgerðina. Það er ekkert smámál að taka að sér að gera svona aðgerð á fólki og það þarf að vanda vel valið á þeim sem maður samþykkir að gera aðgerð á. Velja þá sem eru líklegir til þess að halda nýjum lífstíl áfram,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert