Braut af sér en fær bætur

Arnaldur Halldórsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að verslunarstjóri hjá Subway í Vestmannaeyjum hafi brotið gróflega af sér í störfum og að uppsögn hafi því verið lögmæt. Hins vegar er Subway gert að greiða konunni hálfa milljón króna í málskostnað og 935 þúsund vegna vangoldinna launa.

Konan var fyrst kærð af Subway til lögreglu vegna fjárdráttar og fyrir að hafa gefið eiginmanni sínum mat. Konan var sýknuð af ákærunni, en hafði verið vikið úr starfi og ekki boðið að koma til starfa að nýju.

Í kjölfar þess að hafa verið sýknuð stefndi konan, sem hafði starfað sem verslunarstjóri, Subway vegna ólögmætrar uppsagnar og þess að hún taldi sig ekki hafa fengið greidd réttmæt laun, meðal annars vegna vinnuálags utan hefðbundins vinnutíma. Að auki taldi konan að vegið væri að æru sinni þar sem Subway hafði tilkynnt öðrum starfsmönnum fyrirtækisins um uppsögn hennar. Var krafa hennar að Subway myndi greiða 11 milljónir auks málskostnaðar.

Héraðsdómur Reykjavíkur tók að hluta undir málstað konunnar um vangoldin laun og gerði Subway skylt að greiða henni 935 þúsund krónur vegna þessa. Einnig var fyrirtækið dæmt til þess að greiða 500 þúsund krónur í málskostnað.

Hins vegar segir í dómi héraðsdóms að konan „hafi brotið gróflega af sér í störfum og uppsögn hennar því stuðst við málefnaleg sjónarmið.“ Þá hafi hún meðal annars yfirgefið vinnustaðinn klukkan 13 og beðið starfsmann á vakt að stimpla hana út í lok vinnudags.

Um álag utan hefðbundins vinnutíma segir dómurinn að verkefni sem fólu í sér „að svara símtölum frá samstarfsmönnum sem gátu ekki mætt til vinnu vegna veikinda, útvega afleysingar, bregðast við því þegar þjófavarnarkerfi fór í gang og fleira. Þessi verkefni lágu fyrir frá upphafi ráðningarsamningsins.“ Enda var konan æðsti starfsmaður á staðnum og hafði hún fengið greiddan mánaðarlegan bónus og símreikning vegna þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert