Furða sig á afskiptum Landsbréfa

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi

Tafir hafa orðið á meðferð Samkeppniseftirlitsins á kæru Gray Line gegn Isavia vegna gjaldtöku af hópferðabílum á Keflavíkurflugvelli.

Í tilkynningu frá Gray Line kemur fram að Logos lögfræðiþjónusta, sem tekið hafði að sér að gæta hagsmuna Gray Line og annast samskipti við Samkeppniseftirlitið fyrir fyrirtækið, hafi sagt sig óvænt frá verkefninu í byrjun mars.

„Þetta gerði Logos í framhaldi af kröfu Landsbréfa, sem eru í eigu Landsbankans. Setja þarf nýja lögfræðiþjónustu inn í málið og veldur það töfunum,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur fram að Landsbréf ráði eignarhaldi á Hópbílum í gegnum framtakssjóðinn Horn 3 og að Hópbílar sé annað af tveimur fyrirtækjum sem sömdu um háar greiðslur til Isavia fyrir aðstöðu hópferðabíla fyrir framan flugstöðina á Keflavíkurflugvelli.

„Engin formleg skýring hefur fengist á því hvers vegna Landsbréf, eigandi Hópbíla, gerði þá kröfu að Logos hætti hagsmunagæslunni fyrir Gray Line. Kæra Gray Line á hendur Isavia beindist á engan hátt að Hópbílum og Hópbílar eru ekki aðili að málinu,“ segir í tilkynningunni.

Rútur frá Gray Line.
Rútur frá Gray Line.

„Við erum furðu lostin yfir þessum afskiptum Landsbréfa og skiljum ekki hvað býr að baki. Logos hefur lengi sinnt allri lögfræðiþjónustu fyrir Gray Line. Með ólíkindum er að Landsbréf skuli hafa á hornum sér að það ágæta fyrirtæki starfi fyrir okkur,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line.

„Það að Landsbréf beiti sér af slíkri hörku bendir til að Hópbílar telji sig hafa sameiginlega hagsmuni með Isavia af því að eyðileggja fyrir málatilbúnaði Gray Line. Þeir hagsmunir hljóta að vera gríðarlega miklir úr því að Landsbréf setja þá pressu á Logos að segja viðskiptavini upp með þessum hætti. En pottþétt eru það ekki hagsmunir neytenda sem eigandi Hópbíla er að hugsa um.“

Í tilkynningunni er bent á vefsíðu Landsbréfa þar sem kemur fram að sjóðastýringarfyrirtækið sé í eigu Landsbankans, sem er í eigu íslenska ríkisins.

Helgi Þór Arason framkvæmdastjóri Landsbréfa er formaður stjórnar framtakssjóðsins Horns 3, sem á allt hlutafé Hópbíla.

Hermann Már Þórisson, starfsmaður Landsbréfa, er framkvæmdastjóri Horns 3. Hluthafar eru rúmlega 30 talsins og samanstanda af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og fagfjárfestum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert