Ákærði hótaði vitni öllu illu

Fulltrúar ákæruvaldsins við aðalmeðferðina í Héraðsdómi Reykjavíkur. Kolbrún Benediktsdóttir vararhéraðssaksóknari …
Fulltrúar ákæruvaldsins við aðalmeðferðina í Héraðsdómi Reykjavíkur. Kolbrún Benediktsdóttir vararhéraðssaksóknari flytur málið fyrir hönd embættisins. mbl.is/Eggert

Karlmaður, sem bjó í sama húsi og Sanita Brauna sem var myrt á Hagamel síðasta haust, sagði við aðalmeðferð málsins í dag að hann hefði orðið vitni að manndrápi á ganginum heima hjá sér. Khaled Cario er ákærður fyrir að hafa banað Sanitu Brauna.

Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vitni að byrjuninni á því sem fór á milli Sanitu og Khaled en hann kom heim til sín eftir göngutúr einhvern tímann milli klukkan níu og tíu um kvöldið. 

Aðalmeðferð í málinu hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og stendur hún yfir í dag.

Tilkynnir heimilisofbeldi

Vitnið sagðist hafa hleypt öðrum manni inn og sá maður kemur inn í herbergið til hans og segir að það sé verið að lemja brotaþola með flösku í höfuðið. „Ég hringi í lögregluna og segi að það sé heimilisofbeldi í gangi. Það eru einhver læti þarna og hann er með flösku þannig að ég ætla ekki að æða í þessar aðstæður,“ sagði vitnið.

Hann hélt sig inni í herbergi og ræddi við lögreglu en heyrir þá lætin aukast og færast fram á ganginn. „Á einhverjum tímapunkti er hann held ég að kyrkja hana og lögregla segir mér að grípa inn í,“ sagði vitnið sem komst ekki að vegna þess að hann gat ekki opnað hurðina á herberginu sínu almennilega.

„Ég gat ekki gripið inn í en hann var ofan á henni og var að lemja hana með slökkvitæki,“ sagði vitnið og bætti við aðspurður að grunaði hefði lamið Sanitu með slökkvitækinu við hnakka hennar. Hann sagði að Sanita hefði legið á maganum og ákærði hefði eingöngu verið klæddur í nærbuxur.

Það leið allt of langur tími

Spurður um hinn manninn sagðist hann stundum hafa séð hann hjá Sanitu á morgnanna og lýsti honum sem svörtum og hávöxnum. Hann hafi komið til hans og sagt honum að hringja á lögregluna en hafi líklega látið sig hverfa eftir það.

Spurður hvað það leið langur tími frá því að lætin hófust og þar til lögreglan kom sagði vitnið að það hefði verið langur tími. „Allt of langur tími, fimm til tíu mínútur. Það voru einhver læti allan tímann. Ég komst ekkert fram af því að hann sag fyrir hurðinni hjá mér.“

Hitti ákærða fyrr um daginn

Vitnið sagðist hafa hitt ákærða fyrr um daginn eða kvöldið en hefði ekkert hugsað meira út í það. „Ég hitti hann á sama gangi en ég hafði ekki séð hann fyrr en þá.“

Verjandi ákærða, Vilhjálmur Vilhjálmsson, spurði vitnið hvort það hefði ekki hvarflað að honum og hinum manninum að grípa inn í atburðarásina. Vitnið sagði að hans fyrstu viðbrögð hefðu verið að hringja í lögregluna.

Verjandinn spurði einnig hvert ástand ákærða hefði verið þegar hann sat ofan á Sanitu. „Ég pældi ekki alveg í því, maður sá bara blóð og ég var lítið að pæla í honum. Hann var æstur og sagði „if you call the police I will kill you" eða eitthvað svoleiðis.“

Samkvæmt vef RÚV sagðist Khaled aðeins muna eftir því að hafa slegið Sanitu einu höggi með vínflösku. Hann sagði ástæðu atburðanna ást, afbrýðissemi og vín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert