Málflutningur hefst í morðmáli

Khaled Cairo var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 16 ára …
Khaled Cairo var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 16 ára fangelsi fyrir morð á síðasta ári. mbl.is/Hari

Málflutningur hefst í dag í Landsrétti í máli Khaled Cairo sem dæmdur var í 16 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur 18. apríl á síðasta ári, að frádregnu gæsluvarðhaldi, fyrir að hafa orðið Sanitu Brauna að bana í íbúð við Haga­mel í Reykja­vík í september 2017.

Cairo var enn fremur dæmdur til þess að greiða vel á þriðja tug milljóna í skaðabætur og málskostnað. Ákæruvaldið fór fram á 16 ára fangelsisdóm en verjandi Cairos, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, fór fram á að skjólstæðingi sínum yrði ekki gerð refsing á þeim forsendum að hann væri ósakhæfur. Héraðsdómur féllst ekki á það. Dómnum var því áfrýjað til Landsréttar fyrir hönd Cairos.

Fram kom í dómi héraðsdóms að hafið væri yfir allan vafa að Khaled Cairo hafi veist að Sanitu Brauna að kvöldi 21. september 2017 með því að slá hana ítrekað í höfuðið með bæði flösku og slökkvitæki. Cairo ítrekað slegið Sanitu í höfuðið með glerflöskum inni í rúmi í herbergi hennar. Af því hafi hún hlotið mjög alvarlega áverka í andliti og á höfði.

Enn fremur segir í dómnum að Sanitu hafi tekist að komast fram á gang íbúðarinnar og Cairo þá sest ofan á hana þar sem hún hafi legið á maganum. Cairo hafi í þessari stöðu þrengt kröftuglega með höndunum að hálsi hennar. Cairo hafi að lokum slegið Sanitu með slökkvitæki, sem vegið hafi 9,7 kíló, í höfuðið aftanvert.

Fram kemur að árás Cairos hafi verið hrottafengin. Ítrekuð högg í andlitið með glerflösku hafi verið með þeim hætti að Cairo hafi ekki getað dulist að slík högg gætu valdið dauða. Yrði því að ganga út frá því að ásetningur Cairos hafi verið að bana henni. Miðað við upphaf árásarinnar og hvernig hún hafi endað með hliðsjón af upptökum hafi það verið einbeittur ásetningur Cairos að bana Sanitu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert