„Kvalafullt ofbeldi í margar mínútur“

Málflutningur fór fram í dag í máli Khaled Cairo sem …
Málflutningur fór fram í dag í máli Khaled Cairo sem dæmdur var á síðasta ári í 16 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir morð. mbl.is/Hari

Fulltrúi ákæruvaldsins sagði fyrir Landsrétti í dag að ljóst væri að Khaled Cairo hefði af ásetningi orðið Sanitu Brauna að bana í íbúð við Hagamel í Reykjavík í september 2017, en Cairo áfrýjaði 16 ára fangelsisdómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem féll í apríl á síðasta ári, til Landsréttar. Héraðsdómur komst einnig að þeirri niðurstöðu að ásetningur Cairos væri skýr.

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari fór yfir málið í málflutningi sínum og sagði að fyrir lægi að Cairo hefði barið Sanitu með fleiri en einni flösku, tekið hana hálstaki og síðan lamið hana með slökkvitæki. Þó að hann hefði aðeins slegið hana einu sinni með flösku, sem er það sem Cairo segist muna eftir, væri það nóg til þess að sýna fram á skýran ásetning hans.

Helgi benti á að fyrir lægi mat sérfræðinga um að ekkert benti til þess að Cairo væri ekki sakhæfur eða að hann væri haldinn geðrofi. Þá ætti hann enga sögu geðsjúkdóma að baki. Um hefði verið að ræða „kvalafullt ofbeldi í margar mínútur“. Þó að Cairo kæmi vel fyrir og væri kurteis væri á sama tíma ljóst að ekki væri fyrir að fara mikilli iðrun hjá honum vegna verknaðarins.

Verjandi Cairos, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, hafnaði því að um ásetning hafi verið að ræða af hálfu umbjóðanda síns. Cairo hefði ekki farið að heimili Sanitu til þess að vinna henni mein. Hann hafi hvorki verið vopnaður né reynt að verða sér úti um vopn í eldhúsi íbúðarinnar. Hann hafi einfaldlega tryllst og verið alls ófær um að stjórn gerðum sínum.

Þetta hafi gerst í kjölfar þess að Cairo hafi áttað sig á því að Sanita hafi verið að hitta fleiri karlmenn og þegar svartur karlmaður hafi birst í íbúðinni. Vilhjálmur sagði alls ósannað að hugur Cairos hefði staðið til þess að ráða Sanitu bana. Cairo hafi haft vonir um að vera áfram á Íslandi og ekki líklegt að hann hefði lagt á ráðin um verknað sem myndi setja slík áform í uppnám.

Vilhjálmur sagði Cairo enn fremur hafa ákveðnar efasemdir um orsakir andlátsins. Hann hafi viðurkennt að hafa beitt Sanitu ofbeldi en teldi fleira skipta máli í þeim efnum en atlögu hans. Vilhjálmur lagði enn fremur áherslu á að Cairo hefði verið samvinnuþýður og hegðað sér vel í gæsluvarðhaldi. Fór hann fram á sýknun en til vara að refsing yfir honum yrði milduð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert