„Konur eru í sókn innan flokksins“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Konur í Sjálfstæðisflokknum fengu mjög góða kosningu í málefnanefndir flokksins á landsfundi hans sem fram fór um síðustu helgi. Málefnanefndirnar, sem eru átta talsins og endurspegla fastanefndir Alþingis hverju sinni, halda utan um málefnastarf Sjálfstæðisflokksins í hverjum málaflokki á milli landsfunda og leggja drög að stefnu hans fyrir landsfundi.

Tugir sjálfstæðismanna gáfu kost á sér til setu í málefnanefndunum. Niðurstaðan varð sú að 26 konur náðu kjöri og 14 karlar. Konur eru því 65% nefndarmanna en karlar 35%. Konur skipa ennfremur meirihluta nefndarmanna í meirihluta nefndanna eða í sjö af átta nefndum. Einungis í umhverfis- og samgöngunefnd eru fleiri karlar eða þrír af fimm fulltrúum.

Fjórir af fimm fulltrúum í fjárlaganefnd Sjálfstæðisflokksins eru konur og sama á við um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og velferðarnefnd flokksins. Þrír af fimm fulltrúum í allsherjar- og menntamálanefnd, atvinnuveganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, og utanríkismálanefnd eru ennfremur konur.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sömuleiðis eru konur formenn fimm af átta málefnanefndum Sjálfstæðisflokksins. Þannig er Nanna Kristín Tryggvadóttir formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Sigríður Hallgrímsdóttir formaður fjárlaganefndar, Hildur Sverrisdóttir formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Laufey Sif Lárusdóttir formaður umhverfis- og samgöngunefndar og Ásta V. Roth formaður utanríkismálanefndar.

Þá var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra iðnaðar- og nýsköpunarmála, kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, alþingismaður og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, endurkjörin ritari flokksins.

„Konur eru einfaldlega í sókn innan flokksins. Það sést víða, bæði á landsfundinum og einnig til að mynda á framboðslistum flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Það sést líka í starfi Landssambands sjálfstæðiskvenna þar sem fjöldi kvenna tekur þátt víða af landinu,“ segir Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna í samtali við mbl.is.

Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna.
Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert