Flokkur fólksins áfrýjar dómi héraðsdóms

Inga Sæland, alþingismaður og dóttir stefnanda, við dómsuppkvaðningu í dag.
Inga Sæland, alþingismaður og dóttir stefnanda, við dómsuppkvaðningu í dag. mbl.is/Hari

Tryggingastofnun ríkisins (TR) var í dag sýknuð af kröfu Flokks fólksins vegna máls sem tengist útborgunar lífeyris í ársbyrjun 2017. Málið er rekið í nafni Sigríðar Sæland Jónsdóttur, móður Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins. Inga segir í samtali við mbl.is að flokkurinn muni áfrýja dómnum til Hæstaréttar. 

Forsaga málsins er sú að þegar Alþingi breytti lögum skömmu fyrir áramót 2016/2017 féll fyrir mistök út ákvæði sem heimilaði skerðingu á lífeyri eldri borgara vegna greiðslna sem þeir fá úr lífeyrissjóði. Tryggingastofnun skerti samt sem áður greiðslur lífeyrisþega um næstu mánaðamót og sendi stjórnvöldum ábendingu um mistökin. Því var lögunum breytt til að setja aftur inn heimild fyrir skerðingunni. Sú breyting var afturvirk.

Flokkur fólksins hefur barist fyrir málinu upp frá þessu. Flokkurinn, sem var utan þings á þessum tíma, höfðaði mál gegn Tryggingastofnun til að knýja á um greiðslur samkvæmt þeim lögum sem giltu í janúar og febrúar í fyrra. Samkvæmt því hefði ekki mátt skerða lífeyri vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Skerðingin nam um tveimur og hálfum milljarði króna á mánuði, samanlagt fimm milljörðum króna.

Krafa um óskertan ellilífeyri hvíli ekki á traustum lagagrundvelli

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að krafa stefnanda um óskertan ellilífeyri á tímabilinu hvíli ekki á traustum lagagrund­velli. Inga Sæland segir í samtali við mbl.is að niðurstaða héraðsdóms styrki ekki trúna á dómskerfinu. Flokkurinn mun áfrýja dómnum til Hæstaréttar. „Þessi dómsniðurstaða stingur algjörlega í stúf við settan rétt og mun stefnandi engan veginn sætta sig við hana,“ segir Inga.

Þá segir hún málið vera hreint og klárt réttlætismál. „Við borgararnir eigum að geta treyst því, að dómarar dæmi samkvæmt gildandi rétti.“

Í dómnum kemur fram að málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður Flokks fólksins fyrir héraðs­­­­­­­dómi greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Hlyns Jóns­­­­­­­­sonar, 1.800.000 krónur, auk útlagðs kostnaðar, 24.920 krónur, samtals 1.824.920 krónur.

Þó nokkrir eldri borgarar voru viðstaddur dómsuppkvaðningu í Héraðsdómi Reykjavíkur …
Þó nokkrir eldri borgarar voru viðstaddur dómsuppkvaðningu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert