Barnaníðingar geti ekki farið huldu höfði

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta gengur í raun út á tengja saman aðila sem hafa með þessi mál að gera og þar með tryggja eftirlit, ásamt því að flokka þennan hóp brotamanna. Það gengur út á að finna hvaða aðilar það eru sem eru líklegir til að brjóta af sér að nýju. Það eru ekki margir einstaklingar sem falla í þennan hættulegasta hóp en það er mjög mikilvægt að ná utan um hópinn og veita þessum einstaklingum aukið eftirlit,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í samtali við mbl.is.

Hún hyggst í dag leggja fram frumvarp á Alþingi um breytingar á barnaverndarlögum og almennum hegningarlögum, sem miða að því að hægt verði að auka eftirlit með dæmdum barnaníðingum og skylda þá til að gangast undir áhættumat, ásamt því að styrkja stöðu Barnaverndarstofu.

Hægt verður að gera öryggisráðstafanir

Ef frumvarpið nær fram að ganga mun Barnaverndarstofa meðal annars geta tilkynnt viðkomandi barnavernd ef dæmdur kynferðisbrotamaður, sem gerst hefur brotlegur gagnvart börnum, og veruleg hætta er talin stafa af, flytur í umdæmið. Ef rík barnaverndarsjónarmið mæla með getur barnavernd einnig gert öðrum viðvart að fengnu samþykki Barnaverndarstofu.

Þá verður einnig hægt að gera kröfu um að viðhafðar séu ákveðnar öryggisráðstafanir eftir að einstaklingur sem brýtur kynferðislega gagnvart barni afplánar dóm sinn, ef verulegar líkur eru taldar á því, samkvæmt mati heilbrigðisstarfsmanns, að viðkomandi brjóti aftur gagnvart barni.

Eftirfarandi öryggisráðstafanir verður hægt að kveða á um í dómi:

  1. skyldu til að sinna nauðsynlegri meðferð á vegum heilbrigðisstarfsmanna,
  2. skyldu til að mæta í skipulögð viðtöl hjá félagsþjónustu,
  3. eftirlit með internetnotkun og notkun samskiptamiðla og -forrita,
  4. að einstaklingur haldi sig frá neyslu áfengis og vímuefna,
  5. eftirlit með heimili og
  6. bann við búsetu á heimili þar sem börn eru búsett eða dvelja reglulega.

Ef í ljós kemur að einstaklingur sinnir ekki fyrirmælum um öryggisráðstafanir getur það varðað allt að 2 ára fangelsi.

Skylt að tilkynna um breyttan dvalarstað 

Aðrar breytingar, sem kveðið er á um í frumvarpinu, eru þær að þegar dómar falla vegna kynferðisbrota gagnvart börnum skal Ríkissaksóknari láta Barnaverndarstofu dómana í té. Þá skal Fangelsismálastofnun veita upplýsingar um upphaf og lok afplánunar, sem og skilyrði sem sett eru fyrir reynslulausn, fyrirhugaðan dvalarstað viðkomandi einstaklings, auk gagna frá heilbrigðisstarfsmönnum um einstaklinginn. Viðkomandi einstaklingi er jafnframt skylt að tilkynna breyttan dvalarstað til Barnaverndarstofu allan þann tíma sem áframhaldandi öryggisráðstafanir eiga að vara.

Silja Dögg segir þau mál sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðustu misseri, þar sem brotið hefur verið gegn börnum, bera það með sér að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri er að gera í kerfinu. „Það eru að koma inn upplýsingar en þær fara ekki alla leið. Verkferlar hjá stofnunum hafa ekki verið nógu góðir, en það er auðvitað verið að yfirfara þá þá núna og allir að bæta hlutina hjá sér. En löggjöfin hefur ekki verið nógu sterk. Ég er ekki að segja að þetta sé það eina sem þurfi að gera, en þetta er mitt framlag að þessu sinni, að leggja þetta inn í umræðuna og fá viðbrögð.“

Kynferðisbrotamenn mislíklegir til að brjóta af sér aftur

Í greinargerð með frumvarpinu segir meðal annars að þó að rannsóknir hafi sýnt að ítrekunartíðni kynferðisbrota sé tæplega 20 prósent hjá þeim sem fá ekki meðferð, þá séu þeir sem brjóta af sér mislíklegir til að gera það aftur.

Ef frumvarpið nær fram að ganga mun dæmdum barnaníðingum vera …
Ef frumvarpið nær fram að ganga mun dæmdum barnaníðingum vera skylt að gangast undir áhættumat. mbl.is/Kristinn

Áhættumat sé leið til að meta hættuna sem stafar af tilteknum einstaklingi í tengslum við afbrot af ýmsu tagi. Markmiðið með áhættumati er að spá fyrir um hvort afbrotamaður brjóti aftur af sér og ef ástæða þykir til, að bregðast við niðurstöðunni með viðeigandi hætti til að reyna að koma í veg fyrir að það gerist. Í áhættumati koma einnig fram nauðsynlegar upplýsingar fyrir refsivörslukerfið þegar ákvörðun um skilyrði reynslulausnar er tekin og hvaða þarfir þarf að uppfylla hjá afbrotamönnum til að vernda almenning og draga þar með úr líkum á ítrekun afbrota.

Í greinargerð er einnig bent á að víða erlendis hafi verið tekið upp eftirlits- og stuðningskerfi sem beinist að dæmdum kynferðisbrotamönnum og ætlað er að varna ítrekun brota og stuðla þannig að aukinni vernd barna. Til að mynda í Bretlandi, þar sem komið hefur verið á fót sérstökum ráðstöfunum sem taka yfir þá þætti sem nefndir hafa verið.

Mikilvægt að hlusta á fórnarlömbin

Með þessum breytingum á lögunum telja flutningsmenn að Barnaverndarstofu verði gert kleift að rækja skyldur sínar sem nú er kveðið á um í barnaverndarlögum, með því að geta gert barnaverndarnefndum viðvart þegar einstaklingur sem veruleg hætta kann að stafa af flytji í umdæmi þeirra, viðhafa sérstakar öryggisráðstafanir þegar dómari telur þá hættulega og þannig tryggja betur öryggi barna. Slíkar öryggisráðstafanir koma til að mynda í veg fyrir að dæmdir kynferðisbrotamenn, sem taldir eru hættulegir börnum, geti breytt nafni sínu í Þjóðskrá án þess að vitneskja sé hjá hinu opinbera um nafnbreytinguna.

„Barnaverndarstofa fær þá upplýsingar um að nafnabreyting hafi átti sér stað og veit með hverjum á að fylgjast. Þannig viðkomandi hverfi ekki af radarnum í einhvern tíma, þangað til hann brýtur af sér aftur,“ segir Silja Dögg.

Hún efast um að málið klárist á vorþinginu og gerir ráð fyrir að leggja frumvarpið aftur fyrir þingið í haust, hugsanlega þá með einhverri viðbót. „Fórnarlömbin hafa verið að stíga fram og það er mikilvægt að við hlustum á þá sem hafa reynslu af þessu kerfi, tökum það til skoðunar og bregðumst við með því að bæta þessa umgjörð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert