Vill ekki naga handarbök á gamals aldri

Jóhann segist hafa hrokkið við þegar hann heyrði fyrst lagið …
Jóhann segist hafa hrokkið við þegar hann heyrði fyrst lagið You Raise Me Up. Eggert Jóhannesson

„Maður hrökk við þegar maður heyrði þetta lag fyrst,“ segir Jóhann Helgason, höfundur Söknuðar, um lagið You Raise Me Up sem Josh Groban gerði vinsælt. 

Hann er að undirbúa málshöfðun gegn Universal Music vegna líkinda laganna tveggja en Söknuður var gefið út árið 1977 í flutningi Vilhjálms Vilhjálmssonar, mörgum árum áður en síðarnefnda lagið kom út.

Það var Óttar Felix Hauksson sem bauð Jóhanni í bíltúr árið 2004 til að leyfa honum að hlusta á You Raise Me Up. Óttar hvatti Jóhann til að gera eitthvað í málinu.

Jóhann sagði á blaðamannafundi í dag vegna fyrirhugaðrar málshöfðunar að málið hefði aldrei komist á þennan stað ef hann hefði skráð það hjá Warner Chapell þar sem hann var með útgáfusamning.

Aðspurður eftir fundinn segir tónlistarmaðurinn að það hafi aldrei komið til greina að skrá lagið hjá þeim. „Ég var fluttur heim og það hvarflaði bara ekki að mér að skrá eitthvert lag, sem á að fara á íslenska plötu, hjá þeim og láta þá fá helminginn af höfundarlaununum. Til hvers? Þetta lag er ekkert að fara neitt,“ greinir Jóhann frá.

Jóhann Jóhannsson í Hljóðrita í dag ásamt nafna sínum Jóhanni …
Jóhann Jóhannsson í Hljóðrita í dag ásamt nafna sínum Jóhanni Vilhjálmssyni, syni Vilhjálms Vilhjálmssonar sem söng Söknuð. mbl.is/Eggert

Neitar að gefast upp 

Hann segir aldrei hafa komið til greina að gefast upp í málinu, þrátt fyrir erfiða baráttu við útgáfurisann Universal Music. „Það má segja að maður sé kominn á gamals aldur þó svo að í huganum sé maður ekki þannig. Ég vil ekki vera á gamals aldri að naga handarbökin og segja: „Ég hefði nú átt að gera eitthvað í þessu“,“ segir hann og bætir við að barnabörnin hans yrðu ekki sátt við það.

„Sá sem baðar sig í heiðri og peningum út af þessu á afskaplega lítið í þessu lagi að mínu mati. Hann er í rauninni bara búinn að útsetja Söknuð og hefði átt að fá leyfi fyrir því og ég hefði þá átt að fá hlutdeild í því.“

Snýst fyrst og fremst um prinsippið

Jóhann kveðst vona að Rolf Løvland, höfundur You Raise Me Up, hafi ekki áttað sig á líkindunum við Söknuð þegar hann samdi lagið. „Ég trúi því frekar að hann hafi gert þetta óvart heldur en viljandi,“ segir hann og nefnir að útsetning Løvland sé vissulega frábær.

Gera má ráð fyrir að kröfur um höfundarlaunagreiðslur og skaðabætur muni hlaupa á milljörðum íslenskra króna. Jóhann segist lítið hafa pælt í því hversu mikið hann sjálfur gæti fengið út úr fyrirhugaðri málshöfðun.

„Ég hef fyrst og fremst spáð í prinsippinu í málinu, þó að ég hefði ekkert á móti því að taka við peningum sem ég á rétt á. Það á ekki að vera annarra að hagnast á eigum mínum,“ segir Jóhann. 

Frá blaðamannafundinum sem var haldinn í Hljóðrita í Hafnarfirði í …
Frá blaðamannafundinum sem var haldinn í Hljóðrita í Hafnarfirði í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert