Vilja að ríkisstjórnin stöðvi frumvarpið

AFP

Forystumenn repúblikana og demókrata í utanríkismálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hafa tekið höndum saman og skorað á ríkisstjórn Íslands að stöðva frumvarp um bann við umskurði drengja sem liggur fyrir Alþingi. Bréf þess efnis var sent sendiráði Íslands í Bandaríkjunum í byrjun þessa mánaðar.

Fjallað er um málið á fréttavef ísraelska dagblaðsins Times of Israel. Fram kemur í bréfinu að þó gyðingar og múslimar séu ekki stór hluti af íbúum Íslands gæti slíkt bann verið notað til þess að kynda undir útlendingaandúð og gyðingaandúð í löndum með fjölbreyttari íbúafjölda. Undir bréfið ritar repúblikaninn Ed Royce, formaður utanríkismálanefndarinnar, og Eliot Engel, sem er forystumaður demókrata innan hennar.

Hvetja þeir Royce og Engel ríkisstjórnina til þess að „stöðva þetta óumburðarlynda frumvarp“ og koma þannig í veg fyrir að það nái frekari framgangi. 

mbl.is