Umdeildu frumvarpi vísað til ríkisstjórnar

Frumvarpið felur í sér að umskurður drengja verði bannaður með …
Frumvarpið felur í sér að umskurður drengja verði bannaður með lögum líkt og umskurður stúlkna.

Umdeildu frumvarpi um bann við umskurði drengja verður væntanlega vísað til ríkisstjórnarinnar í næstu viku, en ekki til áframhaldandi þinglegrar meðferðar. Þetta herma heimildir mbl.is en einnig var greint frá málinu í Fréttablaðinu í morgun.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, en því var vísað til allsherjar- og menntamálanefndar þann 1. mars síðastliðinn, þar sem það hefur verið síðan.

Samkvæmt heimildum er líklegasta niðurstaðan sú að samin verði frávísunartillaga innan nefndarinnar með þeirri röksemdarfærslu að ýmsir þættir málsins þarfnist frekari athugunar. Sú tillaga fari svo fyrir þingið.

Má þá búast við því að ríkisstjórnin verði beðin um einhvers konar minnisblað eða greinargerð um málið og að sett verði tímamörk á þá vinnu. Málið kæmi svo aftur inn á borð nefndarinnar og Alþingis að því loknu.

Samkvæmt heimildum er reiknað með því að samstaða náist um það innan allsherjar- og menntamálanefndar að afgreiða málið með þessum hætti.

Frum­varpið fel­ur í sér að umsk­urður barna verði al­mennt bannaður með lög­um að viðlagðri fang­els­is­refs­ingu, í stað þess að bannið nái aðeins til stúlkna eins og nú er raun­in. Hefur það vakið mikla athygli bæði innanlands og utan og fjölmargar umsagnir hafa borist vegna þess.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert