„Gleðin úr augunum er farin“

Tjaldsjúkrahúsið átti að vera tímabundin lausn en því verður ekki …
Tjaldsjúkrahúsið átti að vera tímabundin lausn en því verður ekki lokað af mannúðarástæðum.

„Maður finnur þakklætið en líka tómleikann hjá mörgum. Það er eins og allt sé farið. Gleðin úr augunum er farin. En það er hægt að hjálpa þessu fólki og það er það sem við erum að gera. Við hjá Rauða krossinum erum að bjarga mannslífum á hverjum einasta degi. Við finnum hvað við erum að gera rosalega góða hluti þó umheimurinn geri sér ekki grein fyrir því,“ segir Ruth Sigurðardóttir skurðhjúkrunarfræðingur og sendifulltrúi Rauða krossins sem stödd er í flóttamannabúðum í nágrenni borgarinnar Cox‘s Bazar í Bangladess þar sem hátt í milljón rohingjar hafast við, að stærstum hluta konur og börn.

Rohingjar eru minnihlutahópur múslima sem sætt hefur ofsóknum í heimalandi sínu, Búrma (Mjanmar) og hafa hundruð þúsund flúið yfir landamærin til Bangladess síðustu mánuði.

Sinna öllum erfiðustu verkefnunum

Ruth starfar öllu jafna á skurðstofu á Land­spít­al­an­um Foss­vogi en hún dvelur nú í Bangladess í um mánaðartíma þar sem hún sinnir bráðveikum og slösuðum á tjaldsjúkrahúsinu. Það var stund milli stríða hjá henni þegar blaðamaður náði tali af henni. Það hafa verið vandræði með rafmagn á svæðinu síðustu daga þannig það gekk illa að ná sambandi við hana, en það hafðist á endanum.

„Ég sé um skurðstofuna hér með skurðlækni og öðrum skurðhjúkrunarfræðingi, sem er japönsk. Við erum hérna af öllum þjóðernum að vinna saman. Þessi spítali sem Rauði krossinn er að reka núna er slysa- og bráðaspítali. Hann er einn af mjög fáum spítölum sem eru hérna. Þeir eru nokkrir hér í kring en við erum með opið allan sólarhringinn. Við sinnum slysa- og bráðaþjónustu, en við erum ekki að taka inn fólk sem er langveikt eða með króníska sjúkdóma.  Að mestu leyti erum við með skurðsjúklinga og svakalega mikið af börnum.“

Þeir sem leita til Ruthar og kollega hennar eru í …
Þeir sem leita til Ruthar og kollega hennar eru í flestum tilfellum bráðveikir og töluvert mikið slasaðir.

Ruth segir það kærkomið fyrir fólkið í búðum að fá þá aðstoð sem boðið er upp á á sjúkrahúsinu, jafnvel þó margir komi um langan veg og þurfi að bíða klukkutímum saman. Slasaðir og mikið veikur fá að minnsta kosti úrlausn sinna mála. Fyrir það er fólk þakklátt.

Læknar án landamæra starfrækja einnig heilsugæslustöðvar inni í búðunum en þangað getur fólk leitað með smávægileg veikindi og minniháttar slys. „Við tökum allt þetta erfiðasta. Stóru aðgerðirnar og sinnum þeim sem eru í mestri lífshætti. Þannig þetta er svaka mikið verkefni,“ segir Ruth.

Milljón manns og engin hreinlætisaðstaða

Aðstæðurnar sem hún starfar við eru ansi frábrugðnar þeim sem hún á að venjast á Landspítalanum. „Skurðstofan er í stóru tjaldi en það er mjög lítil kæling hjá okkur. Við erum bara með viftur. Það er yfirleitt svona 36 til 37 stiga hiti á daginn og ofsalega mikill raki úti. Þannig við vinnum oft við erfiðar aðstæður, en okkur gengur það nokkuð vel. Við höfum tiltölulega góð tæki sem Rauði krossinn hefur útvegað okkur.“

Sjúkrahúsið er staðsett inni í miðjum búðunum og þjónar gríðarlega stóru svæði. Ruth gekk aðeins um búðirnar sjálfar morguninn áður en við töluðum saman og hún segir ekki hægt að lýsa aðstæðum með orðum. „Það koma hérna saman hátt í milljón manns en það er engin aðstaða til hreinlætis. Það hefur verið borað fyrir vatnbrunnum, en salerni og sorphreinsun er varla til staðar. Maður trúir því ekki að þetta þurfi að vera svona. En því miður er þetta svona,“ segir Ruth. Það er ljóst að upplifunin hefur tekið á hana.

Mörg börn fá bót meina sinna hjá Ruth, en þau …
Mörg börn fá bót meina sinna hjá Ruth, en þau eru stór hluti þeirra sem búa í búðunum.

Búðirnar eru staðsettar um sex kílómetra frá landamærum Búrma og hún segir stöðugan straum af fólki þar yfir til Bangladess. „Það liggur vegur alveg í gegn, frá landamærunum og inn í borgina Cox‘s Bazar, sem er Bangladess borg hér rétt hjá, en þangað sækjum við mikið okkar birgðir. Það eru alltaf lögreglumenn á veginum sem stoppa flóttafólkið. Það fer ekkert lengra. Fólkið er bara í þessum skelfilegu búðum sem eru hérna.“

Ruth segir Rauða krossinn vinna mjög þarft verkefni á svæðinu, en unnið er í samstarfi við Rauða krossinn í Bangladess og yfirvöld þar í landi. Ekkert er gert nema með leyfi þeirra. „Við erum að reyna að fá læknamenntað fólk frá Bangladess til að vinna með okkur og það gengur þokkalega. Mætti reyndar ganga betur. Vonandi mun það ganga betur í framtíðinni því þeir munu koma til með að sinna þessum verkefnum.“

Búa sig undir kóleru og mikið mannfall

Tjaldsjúkrahúsið sem Ruth starfar á átti átti bara að vera starfandi í nokkra mánuði, líkt og venjan er. „Oftast standa svona sjúkrahús í þrjá mánuði en þetta hefur staðið í sex mánuði og verður haldið opnu áfram því þörfin er svo mikil. Það er ekki hægt að loka, einfaldlega af mannúðarástæðum. En tjöldin okkar eru svolítið farin að mygla í rakanum og trosna í sólinni, þannig það byrjað á því að skipta þeim út.“

Öll börn sem fæðast á tjaldsjúkrahúsinu fá heimaprjónaðar húfur og …
Öll börn sem fæðast á tjaldsjúkrahúsinu fá heimaprjónaðar húfur og sokka frá Rauða krossinum.

Nú er hins vegar erfitt tímabil að ganga í garð, monsún-tímabilið, en því fylgir mikið vatnsveður. „Tímabilið stendur frá því í lok apríl og alveg fram á sumarið. Þá verða gríðarlega miklar rigningar hérna. Þá geta einnig komið stórir fellibyljir með. Það eru allir hjá Rauða krossinum og hérna í kring með miklar áhyggjur af því hvernig aðstæður fyrir flóttamennina muni verða. Að öllum líkindum um kólera koma upp. Við erum að reyna að gera ráðstafanir og undirbúa okkur undir það. Því miður verður örugglega mikið mannfall þegar monsún-rigningarnar hefjast. Þetta verður svakalega erfitt tímabil,“ segir Ruth.

Flóttamannabúðirnar eru byggðar í hæðum og dölum og undirlagið er mold. Þegar svæðið blotnar má búast við aurskriðum og flóðum.

Erfitt að sjá börn alast upp í búðunum

Erfiðast þykir Ruth að horfa upp á börnin í búðunum. „Það er svo mikið af börnum hérna. Það er þyngra en tárum taki að sjá öll þessi börn alast upp í þessum hræðilegu flóttamannabúðum. Maður skilur ekki hvernig þetta er hægt,“ segir hún, en það gladdi hana mikið þegar hún gekk um búðirnar morguninn um morguninn, að sjá að það var búið að reisa skóla með steyptu gólfi og bambusveggjum. Skólinn var ekki þarna þegar hún gekk um svæðið fyrir tveimur vikum.

„Ég fór inn og fékk að tala við kennarann og krakkana. Það var rosalega ánægjulegt að sjá hvað þau voru glöð. Sjá hvað er verið að reyna að gera. Það er til dæmis verið að kenna þeim stafina, en það er auðvitað bara lítill hópur sem kemst fyrir. Það er ákveðin uppbygging í gangi og Unicef er þarna með mjög gott starf. Ég kíkti líka á það.“

Grípa í Ruth og brosa

Ruth segir vissulega erfitt vinna við þessar aðstæður, en hún vissi nokkurn veginn við hverju mátti búast, enda hefur hún áður farið út sem sendifulltrúi Rauða krossins. Þá starfaði hún á Haíti í kjölfarið af stórum jarðskjálfta sem reið þar yfir árið 2010.

Eitt af erfiðum verkefnunum á sjúkrahúsinu er að taka á …
Eitt af erfiðum verkefnunum á sjúkrahúsinu er að taka á móti börnum þar sem vandkvæði koma upp í fæðingunni.

Dvölin í Bangladess hefur þó tekið meira á hana. „Mér persónulega finnst samt erfiðara að vera hér. Mér finnst fólkið eiga svo erfitt hérna. Það er svo sorgmætt og vannært. Börnin sem við erum að taka á móti í keisara eru oft mjög vannærð. Þetta fólk hefur farið um svo langan veg og er oft svo illa farið. Mér finnst þetta því erfið sendiför og hún tekur á. Það er samt frábært starfslið hérna og við erum í þessu saman. Við tölum mikið saman og höfum góðan stuðning af hvert öðru. Maður verður svo glaður þegar maður getur gert eitthvað gott. Sumir koma hingað mjög sorgmæddir og mikið veikir og svo fara þeir að jafna sig. Ég er búin að vera hérna í þrjár vikur og það eru margir sem grípa í mig og brosa því þeir sjá að þeir eru að læknast. Það er sérstakt að upplifa þetta, sorglegt en líka ánægjulegt.“

Eitt af erfiðu verkefnunum sem sinnt er á tjaldsjúkrahúsinu er að taka móti börnum þar sem einhver vandkvæði hafa komið upp í fæðingunni. Öll börnin sem fæðast í tjaldinu fá svo litla gjöf frá Rauða krossinum. „Þau fá litlar húfur og sokka, heimaprjónað af Rauða kross konum. Mæðurnar verða svo glaðar. Það þarf ekki meira til. Ég hvet alla til að gera eitthvað, þó það sé lítið. Það er stórt hér. Þegar við tökum höndum saman þá skilar það sér.“

Búðirnar stækka hratt og þörfin eykst

Hún segir mikilvægt fyrir umheiminn að gefa ástandinu við landamæri Bangladess og Búrma gaum. „Það er mjög þarft verkefni að hjálpa öllum þessum hundruðum þúsunda sem hvergi eiga heima og hafa ekki neitt. Í febrúar var talið að um 700 þúsund manns væru í búðunum, en nú er talan líklega komin upp í 800 til 900 þúsund.“ Það er því ljóst að búðirnar stækka mjög hratt og þörfin fyrir aðstoð eykst dag frá degi.

Ruth sér um skurðstofuna ásamt skurðlækni og öðrum skurðhjúkrunarfræðingi.
Ruth sér um skurðstofuna ásamt skurðlækni og öðrum skurðhjúkrunarfræðingi.

„Þjóðfélagið í Bangladess er að reyna að búa til skipulag fyrir þetta fólk, en eins og gefur að skilja þá er mjög erfitt fyrir eina þjóð að fá svona marga inn í landið á skömmum tíma. Það er eiginlega ekki sanngjarnt að að þeir þurfti að taka á móti svona mörgum án stuðnings,“ segir Ruth. Hún er að vonum stolt af sínum framlagi, sem og kollega sinna. Hún er nítjándi sendifulltrúinn sem Rauði kross Íslands sendir á svæðið frá því tjaldsjúkrahúsið var opnað í september. „Ég er rosalega stolt af því hvað Rauði krossinn er að vinna gott og óeigingjarnt starf hérna. Líka þeir sem eru héðan. Þetta er allt fólk sem leggur sig mikið fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert