Hefur ekki áhyggjur af ímynd bænda

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir sátt meðal bænda um vinnu …
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir sátt meðal bænda um vinnu Matvælastofnunar. Ljósmynd/Bændasamtökin

Formaður Bændasamtaka Íslands, Sindri Sigurgeirsson, segist ekki hafa áhyggjur af því að tilvik eins og hefur komið upp á Austurlandi hafi neikvæð áhrif á ímynd bænda. Hann telur sátt ríkja um störf Matvælastofnunar og segir tilvikið sýna að stofnunin sé að vinna sína vinnu.

Sindri segir í samtali við mbl.is að hann geti ekki tjáð sig sérstaklega um þetta tilgreinda mál. „En það er almenn sátt um hvernig Matvælastofnun er að standa að málum. Það bendir allt til þess að þeir séu að vinna sína vinnu. Það er mjög mikilvægt að það sé tekið á svona og að það sé ekki vanfóðrun í gangi.“

Spurður um hvort heimildir Matvælastofnunar til þess að taka á vanrækslu séu nægilegar segir Sindri að breytingar sem voru gerðar á lögum um velferð dýra 2015 hafi verið nauðsynlegar. „Ég held það sé bara Matvælastofnunar að hverju sinni að meta hversu langt þeir ganga. Þeir gefa alltaf mönnum tækifæri til þess að bæta ráð sitt,“ segir hann.

Sindri hefur ekki áhyggjur af því að ímynd bænda bíði hnekki vegna atvika eins og hefur komið upp hjá bóndanum á Austurlandi. „Ég held að menn hafi nú alveg skilning á því að það geta alltaf komið upp svona einstök mál í öllum atvinnugreinum og það er í eðli okkar mannlega samfélags að svona dæmi geta gerst og ég held ekki að almenningur sé að dæma heila stétt út frá þessu,“ segir formaðurinn.

Minnka vanrækslu með auknum stuðningi

Samkvæmt Sindra hafa Bændasamtökin sett í gang vinnuverndarverkefni sem meðal annars miða að því að auka vinnuhagræðingu og er þeim ætlað að gera starf bænda auðveldara og auka skilvirkni. „Við höfum einnig sett á fót velferðarsjóð til þess að styðja fólk sem á í veikindum til að geta fengið afleysingu og slíkt,“ bætir hann við.

„Við höfum rætt heilmikið um hvernig við getum stutt við fólk sem berst við heilsubrest, ég er ekki að fullyrða að það sé eitthvað sem á við í þessu tilfelli, en þetta er eitt af því sem getur alveg komið upp. Það eru vel þekkt dæmi til um það að vanrækslu dýra sé að rekja til vanheilsu af einhverju tagi,“ segir Sindri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert