Sætir ekki gæsluvarðhaldi þrátt fyrir grun um alvarleg brot

Landsréttur
Landsréttur mbl.is/Hjörtur
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness sem hafnaði kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um að maður sem er grunaður um alvarleg ofbeldisbrot sæti gæsluvarðhaldi.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafðist þess að Héraðsdómur Reykjaness myndi úrskurða manninn til að sæta gæsluvarðhaldi og eingangrun til 20. apríl. Héraðsdómur hafnaði kröfunni 13. apríl sl. Landsréttur staðfesti síðan úrskurðinn í gær. 
Lögreglan segir að maðurinn sé grunaður um brot á nálgunarbanni sem honum var gert að sæta 20. mars  Gögn málsins beri það með sér að maðurinn hafi, samdægurs og nálgunarbannið var sett á af hálfu lögregla haft samband við barnsmóður sína og hafi það ítrekað gerst á þeim tíma sem liðinn er frá 20. mars.
Aðdragandi nálgunarbannsins er sá að maðurinn er grunaður um líkamsárás á hendur konunni þann 9. mars sl. þar sem rökstuddur grunur leiki á að hann hafi notað hníf við þá háttsemi.
Við rannsókn málsins hafi konan lýst ítrekuðu ætluðu ofbeldi mannsins á hendur sér og miklu andlegu ofbeldi. Maðurinn og konan eigi saman ungt barn sem búi á heimili hennar.
Þá segir, að lögregla hafi þurft að hafa afskipti af manninum áður vegna ætlaðs ofbeldis gegn konunni, en það hafi verið í nóvember 2017. Í þágu rannsóknar málsins hafi maðurinn sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Þá er það mat lögreglunnar, að fram sé komin sterkur grunur um að maðurinn hafi framið verknað sem varði fangelsi allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Um sé að ræða mjög alvarlegt brot og ítrekað ætlað ofbeldi.

Hvorki héraðsdómur né Landsréttur töldu hins vegar þær aðstæður vera fyrir hendi sem kölluðu á að úrskurða þyrfti manninn í gæsluvarðhald og einangrun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert