Skoða málsókn vegna mygluveikinda

BHM skoðar nú að fara í prófmál um myglu á …
BHM skoðar nú að fara í prófmál um myglu á barna- og unglingageðdeild Landspítala. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þau svör sem við höfum fengið frá fulltrúum ríkisins eru að þau vilji ekki viðurkenna þetta sem atvinnusjúkdóm, veikindi vegna myglu. Það hefur alveg farið inn í allar stofnanir þar sem mygla er til staðar,“ segir Erna Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri BHM í samtali við mbl.is.

Starfsmenn Barna- og unglingadeildar Landspítala hafa ekki fengið greiddan kjarasamningsbundinn rétt sinn vegna atvinnusjúkdóms, þar sem Landspítali, rétt eins og aðrar ríkisstofnanir, viðurkenna ekki veikindi vegna myglu sem atvinnusjúkdóm.

RÚV greindi frá þessu í dag og hafði eftir Ernu að málaferli vegna þessara mála væru óumflýjanleg. Þetta staðfestir Erna við mbl.is og segir að finna þurfi félagsmann til þess að fara í fordæmisgefandi prófmál gegn Landspítala, sem BHM er tilbúið að bera kostnað við.

Erna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri BHM.
Erna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri BHM. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við sættum okkur ekki við að félagsmenn, þar sem er sannarlega er um myglu að ræða, fái ekki að nýta þá daga sem veita á vegna atvinnusjúkdóms og samið hefur verið um í kjarasamningum,“ segir Erna.

Í frétt RÚV er haft eftir Kristni Tómassyni yfirlækni Vinnueftirlitsins að ekki eigi að nota lista Vinnueftirlitsins um atvinnusjúkdóma til að neita þeim um veikindarétt, það sé misnotkun á listanum.

Erna segir að skilaboðin um að viðurkenna ekki sjúkdóma vegna myglu sem atvinnusjúkdóma komi til stjórnenda stofnana frá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, sem hefur með kjaramál ríkisins að gera.

Hún segir að langan tíma hafi tekið að fá veikindi vegna asbest-ryks viðurkennd sem atvinnusjúkdóm og reiknar með því að það sama verði uppi á teningnum með myglusveppinn.

Viðvarandi vandamál á BUGL

„Ég vona að Vinnueftirlitið sé með þetta mál í gjörgæslu hjá sér. Það er óviðunandi að starfsmenn veikist við það eitt að koma í vinnuna. Þú getur ímyndað þér hvað þetta kostar samfélagið, það er þegar mannekla á Landspítalanum og fólk sem er að vinna annars staðar hefur ekki áhuga á að starfa í þessu umhverfi,“ segir Erna um mygluna í húsnæði BUGL við Laugardal.

Mygla í hús­næðinu hef­ur haft áhrif á starf­semina þar und­an­far­in ár og er Guðrún Hálfdánardóttir blaðamaður mbl.is ræddi við Guðrúni Bryndísi Guðmundsdóttur yfirlækni á BUGL í byrjun desember var aðeins um helm­ing­ur hús­næðis legu­deild­ar­inn­ar not­hæf­ur, eða tíu pláss af sautján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert