Kuldi og uppköst á toppnum

Þarna eru fimm af sex leiðangursmönnum komnir á toppinn.
Þarna eru fimm af sex leiðangursmönnum komnir á toppinn. Ljósmynd/Beity

„Þetta er nú alls ekki fyrsta fjallið sem ég fer á í þessari hæð og sem betur fer var þetta nokkuð reyndur hópur,“ segir Hallgrímur Kristinsson. Hann og fimm aðrir félagar hans skíðuðu fjallið Mt. Damavand í Íran í lok apríl. Fjallið er 5.671 metra hátt, hæsta fjall Mið-Austurlanda og jafnframt hæsta eldfjall Asíu.

Þegar blaðamaður ræðir við Hallgrím er hann býsna lúinn en ferðalangarnir komu heim 1. maí. Ferðalagið var alls tíu dagar en alls voru þeir sjö daga á fjallinu. Auk Hallgríms samanstóð hópurinn af Birgi Valdimarssyni, Guðjóni Benfield, Hauki Haraldssyni, Guðjóni Snæ Steindórssyni og Róberti Lee Tómassyni.

Leiðin upp var erfið.
Leiðin upp var erfið. Ljósmynd/Beity

Þurfa fyrst að venjast hæðinni

„Eftir undirbúning, þar sem við skíðuðum meðal annars 4.000 metra tinda á öðrum fjöllum til að venjast hæðinni, fórum við upp í hæsta skálann á fjallinu en hann er í 4.250 metra hæð. Þar sváfum við og lögðum svo í hann upp á topp snemma næsta morgun,“ segir Hallgrímur. 

Þeir komust á toppinn í hádeginu og skíðuðu að því loknu aftur niður í skálann þar sem lagst var til hvílu áður en lengra var haldið. „Við urðum að vera þar og jafna okkur því þetta tók svo mikið á. Við höfðum enga orku til að skíða áfram,“ segir Hallgrímur og bætir við að toppadagurinn hafi tekið rúma tíu tíma.

Félagarnir á Changizchal-tindi, í um 4.100 metra hæð.
Félagarnir á Changizchal-tindi, í um 4.100 metra hæð. Ljósmynd/Hallgrímur Kristinsson

Eins og áður kom fram er þetta ekki fyrsta fjallið sem þeir félagar fara á í þessari hæð. Fimm af sex manna hópi skíðuðu Elbrus í Rússlandi sem er hæsta fjall Evrópu, 5.642 metrar. Hallgrímur segir að stór hluti af svona ferðum sé aðlögunin; að fara upp í hæð og niður aftur til að líkaminn nái að venjast aukinni hæð.

Ældi og ældi en hélt samt áfram

„Á toppadaginn var einn okkar, sem hafði verið mjög sprækur og hress, farinn að dragast aftur úr. Hann kastaði upp og við héldum að þar væri hans toppatilraun lokið því við vorum komnir í tæpa 5.000 metra hæð þegar þetta gerist og það má ekkert út af bregða. Þegar þú kastar upp ertu búinn að missa mikla orku og þú þarft á allri þinni orku að halda,“ segir Hallgrímur en sá sem ældi þrjóskaðist við og hélt áfram förinni í átt að toppnum.

„Síðan ældi hann öðru sinni og við afskrifuðum hann aftur en hann hélt ótrauður áfram. Þetta endaði með því að hann ældi þrisvar á leiðinni upp, náði að toppa, og ældi í fjórða skiptið á toppnum,“ segir Hallgrímur. „Ég hef sjaldan kynnst jafnmiklum viljastyrk hjá einum manni.“

Ekki var hægt að vera á skíðunum alla leið og …
Ekki var hægt að vera á skíðunum alla leið og þá þurfti að smella þeim á bakið. Ljósmynd/Hallgrímur Kristinsson

Hverasvæði við toppinn í miklum kulda

Ekki er hægt að skíða alla leið upp á topp fjallsins en efstu 200 metrarnir eru þaktir ís og rétt við toppinn er hverasvæði. „Við þurftum að skilja skíðin eftir í 5.450 metra hæð og gengum á mannbroddum síðustu 200 metrana. Þá héldum við að hann kæmi ekkert með okkur en við vorum með tvo leiðsögumenn með okkur og annar þeirra var bara með honum. Svo þegar við stöndum á toppnum og horfum niður þá sjáum við hann þrjóskast upp, eitt skref í einu. Við áttum ekki orð! Svo gekk honum mjög vel niður en þá gátum við beðið eftir honum.“

Til að lýsa aðstæðum á sjálfum toppnum á fjallinu grípur Hallgrímur til klisju sem íþróttaáhugamenn kannast vel við: „Það var ofboðslega kalt á toppnum.“ Vindhraði var um 25 m/s og 17 gráðu frost fyrir utan vindkælinguna en að sögn Hallgríms var alveg magnað að komast á toppinn.

Þarna voru félagarnir nálægt toppnum.
Þarna voru félagarnir nálægt toppnum. Ljósmynd/Hallgrímur Kristinsson

Ætlar að taka pásu

„Þetta tók á og það er misjafnt hvernig þetta fer í menn en þetta hafðist,“ segir Hallgrímur og bætir við að allir séu þeir félagar sem voru í leiðangrinum á Mt. Damavand gamlir björgunarsveitarmenn. „Okkur fannst þetta töluvert erfiðara en þegar við fórum á Elbrus.“

Hallgrímur hlær þegar hann er spurður að því hvort þeir séu ekki farnir að undirbúa næsta ævintýri. „Þetta var þriðji háfjallaleiðangurinn minn á síðustu fjórum árum og ég verð að taka hvíld núna. Ég ætla að nýta næsta árið og gifta mig. Það er auðvelt að segjast vera hættur rétt eftir svona ferð en þegar maður fer að jafna sig þá breytist þetta kannski.“

Sælir og kátir fyrir framan skálann í 4.250 metra hæð.
Sælir og kátir fyrir framan skálann í 4.250 metra hæð. Ljósmynd/Beity
Hallgrímur með lítinn íslenskan fána á toppnum.
Hallgrímur með lítinn íslenskan fána á toppnum. Ljósmynd/Hallgrímur Kristinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert