Starfsfólk verði ekki látið bíða stundinni lengur

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/​Hari

Efling-stéttarfélag lýsir áhyggjum af þeim töfum sem orðið hafa á framkvæmd launaþróunartryggingar af hálfu aðildarfélaga Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, kallar eftir því að vangoldnar afturvirkar hækkanir og önnur laun sem félagsmenn eiga skýlausan rétt á verði greidd þegar í stað og starfsfólk þeirra fyrirtækja sem um ræðir ekki látið bíða stundinni lengur.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu.

Fram kemur, að samið hafi verið um afturvirkar launahækkanir með samkomulagi 21. september 2017 milli Alþýðusambands Íslands og ríkis og Reykjavíkurborgar, þar með talið stofnana sem starfa á grundvelli þjónustusamninga við Sjúkratryggingar Íslands.

„Því miður hafa hjúkrunarheimili og önnur fyrirtæki innan SFV dregið framkvæmd þessara launahækkana. Tafirnar ganga í berhögg við fyrrnefnt samkomulag og eru auk þess íþyngjandi og ósanngjarnar gagnvart félagsmönnum sem reiða sig á hraða og örugga greiðslu. Efling telur ljóst að þau fyrirtæki í velferðarþjónustu sem um ræðir geti ekki komið sér undan skjótri framkvæmd þeirra breytinga sem kveðið er á um, en ríkið og þar með taldir starfsmenn Landspítalans fengu þessar greiðslur fyrir tveimur mánuðum síðan,“ segir í yfirlýsingunni.

„Efling kallar eftir því að vangoldnar afturvirkar hækkanir og önnur laun sem félagsmenn eiga skýlausan rétt á verði greidd þegar í stað og starfsfólk þeirra fyrirtækja sem um ræðir ekki látið bíða stundinni lengur,“ segir ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert