Þurfa að gyrða sig í brók

Ljósmæður mótmæla fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara.
Ljósmæður mótmæla fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert

„Þetta er þrælsnúin deila en ég er að vona að það komi eitthvað í dag,“ segir Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, um kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins.

Níundi fundurinn í deilunni verður haldinn hjá ríkissáttasemjara klukkan 15 í dag.

Áslaug segist hafa átt fínan fund með Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á föstudaginn þar sem farið var yfir stöðu mála og þá möguleika sem væru í stöðunni.

„Mér fannst hún öll af vilja gerð til þess að reyna að leysa þennan hnút þó svo að hún sé ekki fjármálaráðherra og hafi ekki beint samningsumboð,“ greinir hún frá og kveðst því vera vongóð fyrir fundinn í dag.

„Það þarf að leysa þetta. Við verðum einhvern veginn að gyrða okkur í brók og finna lausn á þessu.“

Ljósmæður standa í harðri kjarabaráttu.
Ljósmæður standa í harðri kjarabaráttu. mbl.is/Golli

21 ljósmóðir sagt upp

Guðrún Pálsdóttir, ljósmóðir á meðgöngu- og fæðingardeild Landspítala, sagði við Morgunblaðið að 16 ljósmæður hefðu sagt upp á deildinni og að enn væru að tínast inn uppsagnir.

Áslaug telur að alls hafi 21 ljósmóðir sagt upp á Landspítalanum, bæði á meðgöngu- og fæðingardeildinni og á fæðingarvaktinni.

„Þetta er grafalvarlegt. Það þarf að leysa þetta og það þurfa allir að leggja sig fram við það.“

Ummæli Bjarna ekki hjálpleg

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði um helgina að kröfur ljósmæðra væru 20 prósentum hærri en það sem ríkið væri reiðubúið að semja um og að ekki væri hægt að hækka laun þeirra margfalt meira en laun annarra hópa.

Áslaug segir ummælin ekkert endilega hafa verið hjálpleg. Spurð hvort ljósmæður þurfi að slaka á kröfum sínum segir hún að þær fari fram á ýmislegt fleira en fjárhagskröfur, þar á meðal bættan aðbúnað. „Það er ekkert samtal í gangi og fram að þessu hafa menn ekkert verið að leita lausna,“ segir hún um samninganefnd ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert