Agndofa þegar dróninn var tekinn upp

„Það er einn dagur sem stendur algjörlega upp úr,“ segir Davíð Gunnarsson sem nýlega kom heim úr 11 vikna reisu um Suðaustur-Asíu og Ástralíu. Dagurinn var hluti af tveggja daga siglingu eftir Mekong ánni þar sem hann fór í heimsókn í sveitaþorp í Laos ásamt kærustu sinni og frænku. Þar eyddu þau kvöldstund með íbúum þorpsins og gistu hjá þeim eina nótt.

Í þorpinu ríkir gríðarleg fátækt og fólk eyðir öllum sínum tíma í vinnu til þess að lifa af. Það býr í trékofum og notar pappakassa sem gólfefni að sögn Davíðs. Þessi upplifun hafði mikil áhrif á Davíð og opnaði augu hans fyrir því hversu gott við höfum það hér heima á Íslandi.

Þegar Davíð tók upp drónann sinn, sem hann notar til að taka myndefni á ferðalögum sínum, upp og hóf að fljúga honum yfir þorpið ætlaði allt um koll að keyra. Fólk hljóp í áttina að Davíð, safnaðist hringinn í kringum hann og horfði agndofa á fyrirbærið. Enda aldrei séð tækni af þessu tagi áður.

Davíð sýnir börnunum hvernig hann stýrir drónanum
Davíð sýnir börnunum hvernig hann stýrir drónanum Ljósmynd/Aðsend

Davíð sem er 21 árs gamall, útskrifaðist með stúdentspróf frá Fjölbrautarskóla Garðabæjar fyrir tveimur árum. Hann hafði lengi dreymt um að fara í heimsreisu og ákvað því að bíða með að fara í framhaldsnám svo hann gæti unnið og safnað fyrir ferð drauma sinna.

Eftir hálft ár af vinnu ákvað Davíð að taka milliskref. Hann hafði glímt við kvíða um tíma og hafði alltaf verið flughræddur. Davíð ákvað því að fara til Englands í 10 vikna enskuskóla og leit á það sem góða leið til að vinna í sjálfum sér. Eftir tvo mánuði í Englandi var hann orðinn tilbúinn að taka stærra skref og þegar tækifærið bauðst fór hann einn í reisu um Tæland.

Eftir Taíland kom hann heim og hafði hugsað sér að fara aftur í nám. Fljótlega fann hann þó ferðaþörfina aftur og þegar kærasta Davíðs og frænka gáfu kost á sér í reisu um Asíu var ekki aftur snúið. Þau ferðuðust í samtals 11 vikur, þar af voru þau þrjár vikur í Ástralíu þar sem þau ferðuðust um á húsbíl. Meðal viðkomustaða voru Dubai, Sri Lanka, Laos, Taíland, Malasía og Filipseyjar.

Davíð segist heppinn, enda í fríu fæði og húsnæði hjá foreldrum og getur því lagt mikið fyrir af launum sínum. Hann hefur áður ferðast til Bandaríkjanna þar sem hann heimsótti m.a. Hawai og þræddi vesturströnd Bandaríkjanna.

Davíð mun hefja háskólanám í haust en hann stefnir á frekari ferðalög í framtíðinni. Hann mun þó halda sig við styttri reisur héðan í frá og næst á dagskrá er að skoða sitt eigið land. „Ísland er gullfallegt land,“ segir Davíð að lokum.

Hægt er að fylgjast með ferðalögum Davíð á Instagram síðu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert