Mjakast í viðræðum ljósmæðra

Ljósmæður hafa sýnt samstöðu í kjarabaráttu sinni.
Ljósmæður hafa sýnt samstöðu í kjarabaráttu sinni. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er samtal í gangi og þreifingar. Þetta gengur hægar en margir hefðu kosið, en það mjakast í rétta átt,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, sem á enn í kjaraviðræðum við íslenska ríkið.

Óformlegur samningafundur var haldinn hjá ríkissáttasemjara í dag og var annar slíkur boðaður á þriðjudaginn í næstu viku. Formlegur samningafundur verður svo daginn eftir.

Katrín segist ekki geta tjáð sig um viðræðurnar efnislega, en nefnir að hinir óformlegu fundir hafi reynst vel. Ljósmæður gagnrýndu samninganefnd ríkisins fyrr í þessum mánuði og töldu nefndina hafa hlustað illa á kröfur þeirra.

„Á þessum fundum eru engin mál kláruð. Við ræðum meira útfærslur miðað við það sem hefur verið gert áður, hverju er hægt að breyta eða gera öðruvísi eða hvernig má taka mið af öðrum félögum eða samningum. Þetta eru vinnufundir þar sem við leitum sameiginlegra lausna,“ segir hún.

Aðspurð segist Katrín Sif vona að niðurstaða fáist á næstu vikum. „Það held ég og vona svo innilega,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert