Hvasst í dag og enn hvassara á laugardag

Lögregla minnir íbúa á höfuðborgarsvæðinu á að festa trampólín í …
Lögregla minnir íbúa á höfuðborgarsvæðinu á að festa trampólín í görðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er óalgengt, þetta er venjulega þurrasti og bjartasti tíminn á árinu, en það er ekki reyndin í ár,“ segir Haraldur Eiríksson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Ísland um veðurfarið næstu daga, en búist er við hvassviðri og jafnvel stormi á suðvestanverðu landinu í dag og á laugardag.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við þessu leiðindaveðri sem gengur yfir um helgina og minnir íbúa á að huga að lausamunum, festa niður trampólín og garðhúsgögn eða koma þeim hlutum hreinlega í skjól.

„Það er lægðagangur núna næstu daga og núna  í dag seinnipartinn er spáð allhvassri eða hvassri suðaustanátt með talsverðri rigningu hérna á Suður- og Vesturlandi. Svo erum við á morgun í rólegra veðri, suðvestanátt með skúrum eða slydduéljum hérna vestan til á landinu, hægari vindur en frekar kalt,“ segir Haraldur.

Það hvessir núna eftir hádegið og Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun á Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði. Búist er við að vindur á svæðinu verði 13-23 m/sek, hvassast á Snæfellsnesi. Varað er við því að aktursskilyrði geti orðið varasöm eða erfið, vegna snarpra vindhviða við fjöll.

Norðausturland sleppur best

Útlit er fyrir að enn hvassara verði þegar næsta lægð kemur upp að landinu á laugardaginn. „Þá er spáð hvassviðri og jafnvel stormi hérna á suðvesturlandi fram eftir degi með mikilli rigningu. Svo skánar það eitthvað seinnipartinn, en útlitið er líka frekar leiðinlegt á sunnudag,“ segir Haraldur.

Lægðirnar ná til alls landsins með tilheyrandi hvassviðri og úrkomu, en þó segir Haraldur að almennt verði veðri skást á norðaustanverðu landinu.

„Þar er minnst úrkoma og vindurinn kannski ekki alveg eins hvass þar.“

Viðvaranir hafa verið gefnar út til ferðamanna á vefsíðunni safetravel.is og ferðamenn hvattir til að hægja á sér er þeir keyra meðfram fjöllum á Vestur- og Suðurlandi, þar sem vindhviður geti náð allt að 35 m/sek.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert