Ná ekki fullum lífeyrisréttindum

Fólk sem flutt hefur til landsins eftir miðjan aldur nær …
Fólk sem flutt hefur til landsins eftir miðjan aldur nær ekki að vinna sér inn full lífeyrisréttindi og getur lent í fátækt á ellilífeyrisaldri. mbl.is/Ómar Óskarsson

Öldrunarráð Reykjavíkur, Landssamband eldri borgara og fleiri stofnanir og samtök hafa áhyggjur af afkomu eldri borgara af erlendum uppruna sem ekki hafa náð að vinna sér inn full réttindi í lífeyris- og lífeyrissjóðakerfinu. Á komandi árum mun fjölga mjög í þessum hópi.

Hvatt er til þess að mótuð verði stefna og gripið til sérstakra aðgerða. Öldrunarráð Reykjavíkurborgar hélt ráðstefnu um málefni aldraðra innflytjenda og hefur í kjölfar þess samþykkt bókun þar sem vakin er athygli á vandamálinu. Það stafar ekki síst af því að aldraðir borgarar af erlendum uppruna eiga ekki rétt á tekjutryggingu hjá Tryggingastofnun nema að hluta til. Tillagan verður tekin fyrir í borgarráði í dag.

„Réttindakerfi okkar byggist á búsetu, eins og á hinum Norðurlöndunum. Fólk safnar réttindum með því að búa í landinu. Ef fólk hefur ekki búið lengi í landinu öðlast það ekki fullan rétt til lífeyrisgreiðslna,“ segir Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins. Fólk fær fullan rétt til lífeyrisgreiðslna með því að búa í landinu í 40 ár, á aldrinum 16 til 67 ára. Búseta í styttri tíma veitir hlutfallsleg réttindi. Sigríður Lillý bendir á að fólk geti jafnframt átt réttindi í sínu fyrra heimalandi.

Greiðsla iðgjalda í lífeyrissjóð er grundvöllur lífeyris úr Lífeyrissjóðum. Fólk fær réttindi þar með þátttöku á vinnumarkaði hér í lengri tíma.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Guðrún Ágústsdóttir, formaður öldrunarráðs Reykjavíkurborgar, að fólki af erlendum uppruna á ellilífeyrisaldri geti fjölgað hratt á næstu árum og áratugum. Geti viðfangsefnið því orðið erfitt og flókið í framtíðinni ef ekki er brugðist strax við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert