Flogið um allt samfélagið á töfrateppi

Kristín R. Vilhjálmsdóttir og Guðríður Sigurbjörnsdóttir og Achola Afrikana Otieno.
Kristín R. Vilhjálmsdóttir og Guðríður Sigurbjörnsdóttir og Achola Afrikana Otieno.

„Ég hafði ekki búið hér sem fullorðin manneskja og ég hafði ekki fengið móðurmálskennslu í íslensku í uppvextinum í Danmörku. Ég hafði ekki talað íslensku nema einu sinni til tvisvar á ári, þegar ég kíkti í heimsókn til Íslands. Ég var orðin dönsk og kom því hingað sem innflytjandi,“ segir Kristín R. Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar hjá Borgarbókasafninu.

Ég kom til Íslands eftir að hafa búið í Danmörku í 29 ár, frá því ég var sex ára. Ég var því í raun af erlendum uppruna, þó að ég væri fædd hér. Ég ætlaði að staldra við hér á landi í leyfi í sex mánuði en menningarmótsverkefninu mínu var svo vel tekið að ég er hérna enn, tíu árum síðar,“ segir Kristín R. Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar hjá Borgarbókasafni, en hún er hugmyndasmiður verkefnis á vegum bókasafnsins sem heitir Menningarmót – Fljúgandi teppi.

„Menningarmótsverkefnið mitt gengur út á að varpa ljósi á sögu, lífsreynslu, styrkleika og tungumálaforða þeirra sem taka þátt. Tilgangurinn er að skapa vettvang þar sem borgarbúar geta hist, bæði Íslendingar og þeir sem hér búa en eru með rætur í öðrum löndum og menningarheimum. Þetta snýst um að skapa samtal, leyfa fólki að miðla sinni menningu og tungumáli, út frá þess eigin forsendum og lífsreynslu.“

Kristín segist hafa byrjað að þróa verkefnið þegar hún var kennari á Jótlandi.

„Við vinnum út frá opnu menningarhugtaki, ekki aðeins því sem tengist landamærum, heldur persónulegri menningu og sögu, því að allir eiga sína sögu. Í fjölmenningarsamfélagi okkar gengur þetta út á að flétta sögurnar saman og svo búum við til nýjar sögur saman. Við búum til samfélag saman út frá framlagi hvers og eins,“ segir Kristín og bætir við að Menningarmót – Fljúgandi teppi sé verkefni sem sé í boði fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólana í borginni.

„Þá fer ég og undirbý með kennurum og set verkefni af stað, en á menningarmótinu sjálfu kynna börnin styrkleika sína, áhugamál og persónulega menningu. Við erum að reyna að fljúga út um allt samfélagið á töfrateppinu okkar,“ segir Kristín og bætir við að verkefnið hafi hlotið ýmsar viðurkenningar og vakið áhuga ekki aðeins á Íslandi, heldur líka í hinum Norðurlandaríkjunum, í Kanada, Tékklandi og Belgíu. Einnig hefur verkefni Kristínar fengið tungumálaviðurkenningu; Evrópumerkið árið 2017.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert