Komin dagsetning á Guðmundar- og Geirfinnsmálið

„Maður hefur verið að bíða eftir þessari dagsetningu. Það hefur verið gert ráð fyrir því í nokkurn tíma að koma málinu á dagskrá Hæstaréttar í september og það virðist hafa tekist,“ segir Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, í samtali við mbl.is en til stendur að endurupptaka málsins fari fram fyrir Hæstarétti 13. september. Bæði ákæruvaldið og verjendur munu fara fram á sýknu í málinu.

Spurður hvort það sé ekki nokkuð sérstakt að báðir aðilar fari fram á sömu niðurstöðu segir Davíð aðstæður óneitanlega óvenjulegar. Hann vilji þó ekki gerast neinn spámaður um það hvaða tökum Hæstiréttur kunni að taka málið. Það verði einfaldlega að koma í ljós. „Nú er bara næsta skref að flytja málið og gera grein fyrir kröfugerð ákæruvaldsins og á hvaða rökum hún er reist og það sama gera verjendur í málinu,“ segir hann.

Síðan verði það einfaldlega Hæstaréttar að taka á málinu. Spurður hvort það verði þá einhverjir til þess að andmæla sýknudómi segir hannað kröfunum sem slíkum verði varla andmælt. Hins vegar gætu verið gerðar einhverjar athugasemdir við eitthvað í kröfugerð hans eða orða hlutina með einhverjum öðrum hætti. „Jafnvel taka einhver sjónarmið inn sem rötuðu ekki í greinargerðina hjá mér enda málið mjög umfangsmikið.“

Dugar ekki til sakfellingar

Þannig sé hægt að nálgast málið á marga mismunandi vegu. „Sjálfsagt mun það koma í ljós að menn kunni að greina að einhverju leyti á um það hvað skipti meginmáli í rökstuðningi fyrir sýknu og það er þá leiðbeinandi fyrir Hæstarétt hvaða röksemdir hann þá telur vega þyngst. Þetta er svo umfangsmikið að það er vel svigrúm til þess að ræða þetta fram og til baka og velta vöngum yfir því ða raunverulega skiptir mestu máli þarna.“

Davíð segist aðspurður ekki hafa séð greinargerð verjenda í málinu. Skila hafi átt þeim í síðasta lagi í dag en veittur hafi verið lengri frestur í einhverjum tilfellum fram í júní. Það virtist hins vegar ekki hafa haft áhrif á þau áform að taka málið fyrir í september. „Ég veit svo sem ekki hvort það eru einhverjir ágreiningspunktar í þessu sem skipta máli,“ segir hann ennfremur. Það eigi einfaldlega eftir að koma í ljós á síðari stigum.

Spurður um greinargerð hans segir Davíð að hún sé löng og efnismikil og hægt að ræða hana í löngu máli. „Meginatriðið er að ég krefst sýknu af þessum manndrápsliðum í upphaflegu ákærunni. Í stuttu máli er það byggt á því að ný gögn og endurskoðað mat á eldri gögnum geri það að verkum að það hefur ekki tekist að sanna sekt svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa. Það byggist á því að játningar og framburðir eru einu sönnunargögnin og þegar skoðað er ferlið hvernig þessar játningar voru fengnar og framburðirnir þá dugir það bara ekki til sakfellingar. Það er kjarninn í greinargerðinni.“

Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari.
Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert